Landhelgisgæslunni barst í morgun tilkynning um að tundurdufl hefði borist í vörpu BERGEYJAR VE 544 úti fyrir Austfjörðum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með sprengjusérfræðinga LHG og búnað um borð í varðskipið Þór sem flutti þá áfram um borð í skipið. Ekki var talin þörf á að flytja áhöfn Bergeyjar frá skipinu og gerðu sprengjusérfræðingar tundurduflið óvirkt um borð.
Um var að ræða þýskt tundurdufl frá seinni heimstyrjöldinni með 350 kg hleðslu.
Er skipið nú á siglingu að mynni Reyðarfjarðar þar sem tundurduflinu verður eytt. Varðskipið Þór fylgir skipinu eftir.