Breiðhyltingar fá loks líkamsræktarstöð í hverfið sitt en til stendur að reisa slíka stöð við Breiðholtslaug. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að fela ÍTR, íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar, að ganga til samninga við Þrek ehf., sem rekur World Class, um að vinna áfram að þróun hugmyndar um slíka stöð.
„Þetta er stór áfangi fyrir hverfið,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Hugmyndin er sú að Þrek byggi líkamsræktarstöðina og sjái um rekstur hennar.
Kjartan segir að þetta sé mikilvægur áfangi við að ráðast í uppbyggingu fullkominnar líkamsræktarstöðvar í þessu fjölmennasta hverfi landsins. Engin slík stöð er starfandi í Efra-Breiðholti.
Að sögn Kjartans hefur undirbúningur málsins staðið yfir frá árinu 2009. Þá samþykkti ÍTR tillögu Sjálfstæðisflokksins um að líkamsræktaraðstöðu yrði komið fyrir við Breiðholtslaugina þannig að hún yrði í góðum tengslum við laugina og aðra íþróttastarfsemi á svæðinu.
„Frá upphafi voru menn sammála um að best væri að stefna að því að byggja nýtt hús undir líkamsræktarstöð á lóð Breiðholtslaugar í samvinnu við einkaaðila,“ útskýrir hann. Það sé svipað og gert hafi verið með góðum árangri við Laugardalslaug.
„Brátt kom þó í ljós að erfitt yrði að hrinda slíku verkefni af stað í því efnahagsástandi sem ríkti á árunum 2009 og 2010,“ segir hann. Því hafi verið brugðið á það ráð að kanna hvort koma mætti fyrir aðstöðu til líkamsræktar í kjallara laugarinnar til bráðabirgða, eða þar til aðstæður bötnuðu á bæði fjármála- og byggingamarkaði.
Tveir aðilar buðu sig fram til að taka þátt í forvali um uppbyggingu og rekstur líkamsræktarstöðvar í kjallaranum en eftir ítarlega skoðun var horfið frá forvalinu. Kjartan segir að sú ástæða hafi vegið þyngst að kjallarinn var ekki talinn henta slíkum rekstri nægilega vel, meðal annars vegna takmarkaðrar lofthæðar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu þá fram nýja tillögu um málið í marsmánuði árið 2012, en þar var kveðið á um að undirbúningur yrði hafinn að byggingu húsnæðis fyrir líkamsræktarstöð við laugina.
Samkvæmt tillögunni skyldi stefnt að því að byggja húsnæðið í samstarfi við einkaaðila, sem sjái um fjármögnun verkefnisins og rekstur stöðvarinnar, líkt og gert hefði verið við nokkrar aðrar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu.
Auglýst var á ný og lýstu tveir yfir áhuga á verkefninu: Actic Ísland ehf., rekstraraðili Gym heilsu, og Þrek ehf., rekstraraðili World Class.
Í lok janúarmánaðar á þessu ári ákvað sérstakur matshópur á vegum Reykjavíkurborgar loks að velja Þrek ehf. til að vinna áfram að þróun hugmyndarinnar og að gerður skyldi sérstakur samningur við fyrirtækið þar að lútandi. Kjartan segir að jafnframt hafi verið samþykkt að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi lóðar íþróttamannvirkja við Austurberg í tengslum við verkefnið.
Hann segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi á fundinum í dag óskað eftir því að auglýst verði eftir hugmyndum frá íbúum um framtíðarfyrirkomulag líkamsræktarstöðvarinnar og Breiðholtslaugar. Markmiðið sé að efla enn frekar íþróttastarfsemi, æskulýðsstarf og mannlíf í Breiðholti.