Renzo Gracie, sem er goðsögn í heimi MMA, telur að Gunnar Nelson eigi eftir að verða heimsmeistari í veltivigt á næstu tveimur árum. Gareth Davies, sem er sérfræðingur breska blaðsins Telegraph í MMA, fjallar ítarlega um íslenska bardagakappann í grein á vef blaðsins í dag.
Þar segir að Gunnar muni snúa aftur í búrið 8. mars næstkomandi eftir meiðsli en þá berst hann við Rússann efnilega Omar Akhmedov í London. Gunnar hefur verið frá vegna rifins liðþófa í hné undanfarna mánuði.
Í greininni á vef Telegraph er fjallað um bardagann og ræðir Gracie jafnframt um Gunnar sjálfan og hæfileika hans. Þá lýsir Davies, greinarhöfundurinn, Gunnari sem hógværu undrabarni sem syndi í ísköldu vatni líkt og víkingarnar á sínum tíma.
Gracie segir frá því þegar hann sá Gunnar fyrst hér á landi fyrir um sex árum. Þá hafi hann haldið námskeið hér í blönduðum bardagalistum og óskað eftir sjálfboðaliða. Gunnar bauð sig fram og heillaði Gracie strax upp úr skónum.
Í kjölfarið bauð Gracie Gunnari til New York til að æfa undir leiðsögn bestu þjálfara í heimi. Í greininni er haft eftir Gunnari að það hafi verið mikil viðbrigði að koma til stórborgarinnar sem aldrei sefur. „Fólk gekk hraðar þar en bílar á Íslandi keyra. Það var skrítið að geta ekki séð skýin, aðeins háhýsi, nema maður leit alveg upp,“ segir Gunnar. „Andrúmsloftið var öðruvísi, þykkara, þyngra. Allt var svo öðruvísi.“
Gracie bendir enn fremur á í greinni að það hafi verið mikilvægt fyrir Gunnar að komast til New York, þrátt fyrir að hann hafi upplifað hálfgert menningarsjokk, og æfa með þeim bestu undir leiðsögn góðra þjálfara.
Hann bætir því við að enginn vafi leiki á því að Gunnar eigi eftir að verða heimsmestari í veltivigt. „Hversu fljótt hann mun vinna er undir honum sjálfum komið, en ég held að hann muni geta sigrað alla í flokknum á næstu tveimur árum,“ segir Gracie. Hann eigi eftir að vera á allra vörum mjög bráðlega.