Ungt fólk vill búa miðsvæðis

Ungt fólk vill búa miðsvæðis í Reykjavík.
Ungt fólk vill búa miðsvæðis í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Ungt fólk vill helst búa miðsvæðis í Reykjavík, samkvæmt nýrri könnun Capacent um þróun fasteignamarkaðarins. Hátt í níutíu prósent fólks á aldrinum 18 til 34 ára sögðust helst vilja búa í mið- eða vesturbæ Reykjavíkur.

Af þeim landsmönnum sem voru spurðir sögðust 42% að þeir myndu vilja búa í Reykjavík, 13% í Kópavogi og 11% á Suðurnesjum. Af þeim sem vildu búa í Reykjavík sögðust um 58% vilja búa í mið- eða vesturbænum.

Fram kom í erindi Þrastar Sigurðssonar, ráðgjafa hjá Capacent, á fundi um stöðu og horfur á byggingamarkaði sem Húsasmiðjan efndi til í morgun að umframeftirspurn væri eftir þriggja herbergja íbúðum en offramboð af fjögurra herbergja eða stærri íbúðum.

Þröstur sagði ýmislegt skýra vinsældir miðborgarinnar. Fólk sæki bæði atvinnu- og skemmtanalíf í miðbænum og þá séu samgöngur jafnframt kostnaðarminni. 80 til 90% þeirra sem eru á aldrinum 18-34 vilja búa í hverfum 101, 105 og 107, samkvæmt könnuninni, en svo fer hlutfallið niður undir 40% þegar fólk er komið á miðjan aldur. Hlutfallið hækkar síðan örlítið aftur þegar fólk er orðið eldra.

Í könnun Capacent kemur jafnframt fram að ekki sé grundvöllur fyrir uppbyggingu á sérbýli en að hins vegar sé mikil umframeftirspurn eftir minni íbúðum. Þá fari um fjórðungur af ráðstöfunartekjum landsmanna í húsnæðiskostnað en hjá tekjulægri er hlutfallið 45%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert