Vaka sigraði í kosningunum

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Úrslit hafa verið tilkynnt í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúndenta, fékk 19 menn kjörna af 27 stúdentaráðsfulltrúum í kosningunum sem fóru fram í gær og í dag. Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk átta menn kjörna.

Í ár var í annað skipti kosið eftir nýjum reglum og voru kosnir sviðsfulltrúar á fimm sviðum, en saman mynda sviðsfulltrúarnir eitt stúdentaráð. Sjö fulltrúar eru af félagsvísindasviði en fimm frá hinum sviðunum.

Á félagsvísindasviði fékk Vaka fimm menn kjörna og Röskva einn. Á verk- og náttúruvísindasviði fékk Vaka fjóra menn kjörna og Röskva einn.

Á menntavísindasviði fékk Vaka fjóra fulltrúa kjörna og Röskva einn. Á hugvísindasviði fékk Vaka þrjá fulltrúa kjörna og Röskva tvo. Að lokum fékk Vaka þrjá fulltrúa á heilbrigðisvísindasviði en Röskva tvo.

Kjörsókn meiri en í fyrra

5.992 greiddu atkvæði í kjörinu en 14.732 voru á kjörskrá. Kjörsókn var því 40,67%, heldur meira en í fyrra.

Árni Grétar Finnsson, formaður kjörstjórnar, sagði að það væri ánægjulegt að sjá að kjörsóknin í kosningunum til Stúdentaráðs færi vaxandi með árunum. Hann segir kjörsóknina ekki hafa verið jafn góða í mörg ár.  „Ég held að báðar fylkingar hafa vitað að mikið var í húfi og þær lögðu sig allar fram,“ segir Árni Grétar í samtali við mbl.is.

Í fyrra greiddu 5.154 stúdentar atkvæði í kjörinu og var kjörsóknin 35,1%.

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands.
Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert