Alvarlega slasaður eftir hátt fall

mbl.is/Hjörtur

Rúmlega tvítugur karlmaður slasaðist talsvert er hann féll niður um fjórar hæðir og lenti á steingólfi í nýbyggingu í Vallakór í Kópavogi um hádegisleytið í gær, en hann var þar við störf.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. Hann hélt meðvitund allan tímann, en er mjög alvarlega slasaður. M.a. brotnaði hryggur hans á þremur stöðum, hann er mjaðmagrindarbrotinn, skaddaðist á báðum ökklum og þá sködduðust líffæri hans nokkuð.

Hann gekkst undir níu klukkustunda aðgerð í gær sem stóð fram á nótt og er nú haldið sofandi í öndunarvél.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi er talið að maðurinn hafi fallið 12-13 metra. Ekki er vitað hvernig slysið vildi til, en fulltrúi frá Vinnueftirlitinu kom á vettvang og skoðaði aðstæður á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert