„Ég er alsaklaus af þessu, alveg,“ sagði Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, við þingfestingu máls sérstaks saksóknara gegn honum og Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans þegar hann féll, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Sigurjón og Elín voru bæði viðstödd þingfestinguna en þau eru ákærð fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða. Elín lýsti að sama skapi yfir sakleysi sínu þegar dómari innti hana eftir afstöðu til sakarefnisins.
Verjendur Sigurjóns og Elínar lögðu fram bókanir þar sem óskað var eftir því að lögmenn fengju tækifæri til þess að ræða við vitni í málinu og ennfremur með áskilnaði vegna þess að ekki hafi gefist ráðrúm til þess að fara í gegnum öll gögn málsins sem væru 2.400 blaðsíður.
Þá áskildu verjendurnir sér rétt til þess að leggja fram frávísunarbeiðnir þegar málið yrði næst tekið fyrir. Urðu málsaðilar ásáttir um að milliþinghald færi fram 12. mars næstkomandi þar sem teknar yrðu ákvarðanir um framhaldið. Dómari tók fram að ólíklegt væri að aðalmeðferð færi fram fyrir dómhlé í sumar.