Tónlistarmyndbönd poppstjarna í dag verða sífellt djarfari og kynlífsvæddari. Poppstjörnur á borð við Miley Cyrus, Rihanna, Beyoncé og fleiri eru oftar en ekki afar fáklæddar og ögrandi í sínum myndböndum. Í mörgum tilfellum eru þau naumast við hæfi barna og unglinga sem eru þó gjarnan aðaláhorfendur og aðdáendur umræddra stjarna.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn og unglingar verða fyrir áhrifum af því að sjá mikið af kynlífi og kynlífstengdu efni ung að aldri, og þá er litið til klámvæðingar, ekki kláms. Unglingar sem horfa á mikið af kynlífstengdu efni eru jafnframt líklegri til að byrja fyrr að stunda kynlíf.
Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarspekúlant segir klámvæðingu tónlistarmyndbanda varasama. „Eins og það er nú hallærislegt og oft hlegið að því þá verður það sem er verið að gefa í skyn í þessum myndböndum æ grófara. Það er líka orðið svo teiknimyndalegt og óraunverulegt,“ segir hann. „En þegar það er rætt um þetta koma alltaf sömu viðbrögð um að þetta sé viðkvæmni og eintómir femínistar að tjá sig en ég er bara svo ótrúlega ósammála því. Ég trúi því einlæglega að það sé ákveðin ósanngirni og óréttlæti sem er byggt inn í þetta kerfi.“
Lára Rúnarsdóttir, tónlistarkona og stjórnarkona í Félagi kvenna í tónlist, vill meina að klámvæðing í tónlistarmyndböndum sé ein birtingarmynd brenglaðra staðalímynda í samfélaginu. „Fjölmiðlar hampa þessu og vilja ekki bera neina samfélagslega ábyrgð á því hvernig konur eru kynntar og settar fram. En það er ekki gott að benda á og saka konurnar sjálfar um. Þær hafa alist upp í samfélagi sem er gegnsýrt af þessum staðalímyndum. Ég get alveg skilið að þær haldi að þær þurfi að gera þetta og að þær þurfi að keppa hver við aðra. Miley Cyrus gerir eitthvað sem hneykslar fólk og vekur athygli og þá svarar Rihanna með einhverju öðru ögrandi.“
Ítarlegri umfjöllun um málið má að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út á morgun.