Þórður Þórarinsson stjórnmálafræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og tekur til starfa 15. mars næstkomandi.
Þórður fæddist árið 1967 og hefur undanfarin níu ár verið framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins sem er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Þar áður starfaði hann fyrir upplýsingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar.
Þórður gegndi á sínum yngri árum ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat meðal annars í stjórn Heimdallar í fjögur ár og var formaður félagsins 1994-1995 auk þess sem hann sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna um tveggja ára skeið.
Maki Þórðar er Marta María Ástbjörnsdóttir sálfræðingur og eiga þau þrjá syni, segir í tilkynningu.