Rúmu tonni af kopar stolið

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Miklu magni af kopar var stolið frá Íslenskum aðalverktökum nýverið. Er áætlað að rúmt tonn hafi horfið með þessum hætti. Þjófnaðurinn uppgötvaðist nokkru eftir að hann er talinn hafa átt sér stað og var lögreglunni á Suðurnesjum tilkynnt um hann. Brotist hafði verið inn í byggingu á athafnasvæði ÍAV við malbikunar- og steypustöðina í Ferjutröð í Reykjanesbæ. Þjófarnir komust inn með því að spenna upp hurð. Talsvert af koparnum var geymt í kössum, sem þjófarnir höfðu á brott með sér. Einnig hafði koparköplum verið rúllað niður af keflum og þeir teknir. Er talið að verðmæti koparsins sem brotamálms sé um 500 krónur á hvert kíló, en verðmæti koparsins í köplunum sé mun meira.

Einnig hafði verið brotist inn í tvær aðrar byggingar á svæðinu. Úr annarri þeirra var stolið brettalyftu, en engu úr hinni.

Talið er að brotist hafi verið inn í byggingarnar og stolið úr þeim hinn 25. eða 26. janúar. Lögregla biður alla þá sem geta gefið upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir á athafnasvæði ÍAV á þessum tíma að hafa samband í síma 420-1700

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert