SGS er klofið í viðræðum við SA

Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Átta af þeim aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins sem felldu nýgerðan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins ætla að vinna saman að nýrri kröfugerð. Tvö félög sem einnig felldu samninginn eru ekki í þessum hópi og formaður annars þeirra segir þetta slæma þróun fyrir íslenskt verkafólk, órjúfanleg samstaða sé lykillinn að árangri.

Þau félög sem ætla saman í viðræður við SA eru Eining-Iðja á Akureyri, Aldan í Skagafirði, Samstaða á Blönduósi, Stétt-Vest á Vesturlandi,  Drífandi í Vestmannaeyjum, Báran á Selfossi,  Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðsfélag Snæfellinga. Þau tvö félög sem ekki eru í þessum hópi eru Verkalýðsfélag Akraness, VLFA og Framsýn á Húsavík. 

Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA.

„Ef menn ætla sér að ná árangri í kjaramálum er órjúfanleg samstaða lykillinn. Mér finnst undarlegt að ekki hafi verið haft samband við okkur og Framsýn,“ segir Vilhjálmur.

Hvers vegna heldurðu að það hafi ekki verið gert? „Það gæti verið vegna þess að við höfum verið ögn grimmari í að vilja sækja fram af fullri hörku til að reyna að leiðrétta kjör þeirra tekjulægstu. Við höfum fært fyrir því góð og gild rök að þau kjör sem nú er verið að bjóða verkafólki duga ekki fyrir lágmarksframfærslu. Við höfum líka fært rök fyrir því að það er svigrúm í þeim atvinnugreinum sem stór hluti okkar verkafólks starfar hjá þar sem mikill uppgangur hefur verið; ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Við höfum viljað fara fram af eins mikilli hörku og þurfa þykir í þeim efnum.“

Munur á samstöðu innan SGS og hjá framhaldsskólakennurum

Vilhjálmur segir áhugavert að bera saman stöðu kjaramála Starfsgreinasambandsins og Félags framhaldsskólakennara. „Samstaða framhaldsskólakennara virðist órjúfanleg, þeir fara fram á 17% launahækkun úr ríkissjóði sem stendur ekkert allt of vel. Við förum fram á 20.000 króna hækkun á mánaðarlaunum gagnvart atvinnugreinum sem eru m.a. að hagnast á stöðu íslensku krónunnar eins og enginn sé morgundagurinn. Mér finnst ótrúlegt að menn séu ekki tilbúnir til að láta út svo mikið sem annan olnbogann til að láta finna fyrir sér.“

Ertu þá að tala um þessi átta félög sem ætla saman í viðræður við SA? „Það á eftir að koma í ljós hvaða vegferð þau ætla að fara.“

Skelfilegt fyrir verkalýðshreyfinguna

Vilhjálmur segir „skelfilegt“ fyrir verkalýðshreyfinguna innan ASÍ að samstaðan skuli ekki vera meiri en raun ber vitni. „Ég skil ekki hvers vegna þessari samstöðu er ekki til að dreifa innan aðildarfélaga ASÍ. Við erum að vinna fyrir tekjulægsta fólkið í samfélaginu.“

Spurður um framhaldið segir Vilhjálmur að nú séu VLFA og Framsýn í slæmri stöðu. „Ugglaust munu Samtök atvinnulífsins fara í viðræður við þetta bandalag og það verður erfitt fyrir tvö félög úti á landi að standa ein fyrir utan það. En við og Framsýn munum ekki leggja árar í bát, en það er alveg ljóst að þegar samstaðan er ekki meira en þetta verður það erfiðara en ella.“

Fundur formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins verður haldinn klukkan 13 í dag. Verður þessi klofningur innan sambandsins ræddur þar? „Þetta er reyndar löngu fyrirfram ákveðinn fundur. En það má vel vera að þetta komi til umræðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert