Víða hálka eða hálkublettir

Hálkublettir eru á Grindavíkurvegi og á Suðurnesjum sem og á Hellisheiði og í Þrengslum og víðar á Suður- og Suðvesturlandi. Hálka og skafrenningur eru á Holtavörðuheiði en hálka er á Laxárdalsheiði en annars eru hálkublettir nokkuð víða á Vesturlandi. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir víðast hvar. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Gemlufallsheiði. Skafrenningur er á nokkrum fjallvegum. Þæfingsfærð og snjókoma er á Steingrímsfjarðarheiði en þæfingsfærð og skafrenningur á Þröskuldum. Snjóþekja og stórhríð er á Klettshálsi og hálka og óveður á Hjallahálsi.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum þó er þjóðvegur 1 greiðfær í Húnavatnssýslum og í Skagafirði.

Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þverárfjalli. Snjókoma og skafrenningur er á Öxnadalsheiði en snjóþekja, snjókoma og skafrenningur er víða á Norðausturlandi. Þæfingsfærð er á Mývatnsöræfum.

Hálka eða snjóþekja er á flestum fjallvegum á Austurlandi en ófært á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Þæfingsfærð og þoka er á Vatnsskarði eystra. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Héraði. Greiðfært er frá Reyðarfirði og áfram með suðausturströndinni.

Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir daginn, frá kl. 8.00 til 19.00 fram á föstudaginn 7. febrúar. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert