Ákærurnar verði dregnar til baka

Flokksráðsfundi VG á Grand hóteli lauk í dag.
Flokksráðsfundi VG á Grand hóteli lauk í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykkti í dag ályktun um að ákærur á hendur þeim níu einstaklingum sem voru á meðal þeirra sem stóðu fyrir mótmælum í Gálgahrauni yrðu afturkallaðar.

„Ákærurnar eru gróf árás á tjáningarfrelsi í landinu og aðför að lýðræðislegum rétti fólks til að mótmæla, sem er tryggður í stjórnarskrá landsins. Ákærurnar fela í sér misbeitingu valds, slæmt fordæmi og eru jafnframt til þess fallnar að fæla fólk frá því að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til mótmæla,“ segir í ályktun fundarins.

Ályktun sem stjórn Ungra vinstri grænna lagði fram á fundinum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu var ekki afgreidd á fundinum. Í drögum að ályktun sem lögð var fyrir fundinn var „harðlega [lagst] gegn öllum áformum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu“. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, lagði til að ályktuninni yrði vísað til stjórnar flokksins og var það samþykkt. Allmargir lögðust hins vegar gegn því að ályktunin yrði afgreidd með þessum hætti.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem hafnað er hugmyndum um sérstaka greiðslu fyrir aðgengi að náttúruperlum landsins. „Náttúruperlur Íslands eru sameign okkar, sem við eigum ekki að þurfa að greiða aðgangseyri að heldur eigum við öll að eiga að þeim greiðan og jafnan aðgang. Uppbygging ferðamannastaða er brýnt verkefni bæði til að bæta aðgengi að þeim en ekki síður til að verjast átroðningi, forðast skemmdir og bæta þjónustu við ferðafólk. Til þessa brýna verkefnis þarf aukið fjármagn úr sameiginlegum sjóðum og frá greininni sjálfri og metnað er kemur að hönnun og útfærslu,“ segir í ályktun fundarins.

Nánar er hægt að lesa um ályktanir fundarins á

<a href="http://www.vg.is/flokksradsfundur-2014-samthykktar-alyktanir/" target="_self">heimasíðu VG</a>

.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert