„Þetta er mjög alvarlegt mál því álverið getur ekki verið án rafmagns í langan tíma,“ segir
, upplýsingafulltrúi Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði, en rafmagn fór af kerskála álversins í um tvo klukkutíma í morgun. Í kjölfarið fór rafmagn af stórum hluta Austurlands og var rafmagnslaust um tíma m.a. á Egilsstöðum, Eskifirði, Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri.Rafmagnið fór af kerskála Alcoa um kl. 5 í morgun. Ekki tókst að koma rafmagni á álverið aftur fyrr en laust fyrir kl. 8. Tíma tekur að keyra kerfið upp að nýju.
Dagmar segir ekki vitað hvers vegna rafmagnið sló út, en þó sé ljóst að bilunin sé ekki í búnaði álversins. Hún segir að Landsnet og Landsvirkjun eigi eftir að skoða betur orsök bilunarinnar.
Dagmar segir að þegar svona óhöpp verði fari viðbragðsáætlun af stað í álverinu, sem m.a. miði að því að tryggja öryggi starfsmanna. Hún segist ekki geta svarað því hversu mikið tjón hafi orðið hjá álverinu í rafmagnsleysinu. Það taki nokkra daga að ná jafnvægi í framleiðslunni á ný og það verði því ekki fyrr en eftir helgina sem menn geti metið tjónið. Hún segir það hins vegar mjög alvarlegt mál þegar rafmagn fari af álveri í svona langan tíma.
Fyrir jólin 2010 varð bruni í spenni við álver Fjarðaáls, en það leiddi til þess að rafmagn fór af álverinu í um tvær klukkustundir.
Hallgrímur Halldórsson hjá stjórnstöð Landsvirkjunar segir að það hafi orðið alvarleg spennutruflun um kl. 5 í morgun sem hafi leitt til víðtæks rafmagnsleysis á Austurlandi og hjá álverinu á Reyðarfirði. Það taki tíma að byggja upp kerfið að nýju, en rafmagn hafi verið komið á allar dreifilínur Landsnets fyrir kl. 8 í morgun.