Mekatronik bar sigur úr býtum

Liðið Mekatronik bar sigur úr býtum í árlegri hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fór fram í Hörpu fyrr í dag. Liðið er skipað tveimur nemendum í mekatróník við Keili og nemanda í sakfræði við American InterContinental University. Athygli vakti að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók þátt í keppninni.

Í samtali við mbl.is segir Þórarinn Már Kristjánsson, formaður undirbúningsnefndar keppninnar, að tólf lið hafi tekið þátt að þessu sinni. „Þetta gekk mjög vel og það var mjög gaman að halda keppnina í fyrsta skipti í Hörpu,“ segir hann.

Keppnin fór fram í Silfurbergi í Hörpu í tengslum við UT-messuna. Þórarinn Már segir að setið hafi verið í hverju sæti, en keppnin hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Flestum gekk vel að leysa þrautirnar

Líkt og í fyrri keppnum áttu liðin að koma heimasmíðuðu farartæki yfir tiltekna braut. Á leið þess frá upphafsreit að endastöð þurfti tækið að komast yfir vatn og rúllubraut, taka upp tennisbolta, sprengja blöðru eða klippa á bandið sem hélt henni fastri við brautina og skila boltanum í gegnum gat við enda brautarinnar. Þrautinni þurfti að ljúka á innan við tveimur og hálfri mínútu.

Hér má sjá myndband af þrautabrautinni.

Þórarinn Már segir að flestum liðunum hafi gengið vel að leysa þrautirnar. Þó hafi aðeins einu liði, Mekatronik, tekist að ljúka þrautinni að fullu. Liðið skipuðu þau Arinbjörn Kristinsson og Thomas Edwards, nemendur í mekatróník við Keili, og Fanney Magnúsdóttir, nemandi í sakfræði við American InterContinental University. Hlutu þau að verðlaunum 400 þúsund krónur frá Marel, öðrum af aðalbakhjörlum keppninnar, og veglegan farandbikar.

Hinn aðalbakhjarl keppninnar, Nýherji, veitti einnig vinninga samtals að upphæð 400 þúsund krónur fyrir bestu og frumlegustu hönnun farartækis. Liðið Fallöxin hlaut verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina en liðið var skipað þeim Andra Orrasyni, nemanda í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, Snorra Tómassyni, nemanda í iðnaðarverkfræði við sama skóla, Sonju Orradóttur, nemanda við Menntaskólann í Reykjavík, og Jóhanni Þorvaldssyni, nemanda við Tækniskólann.

Verðlaun fyrir bestu hönnunina hlaut liðið Acrylic Power en það var skipað Sigurbirni Jónssyni, nemanda í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Melkorku Rún Sveinsdóttur, nemanda í vélaverkfræði við sama skóla, og Ragnari Smára Ragnarssyni, nemanda í iðnaðarverkfræði við sama skóla.

Ráðherrann kveikti á tækinu

Þá vakti það athygli að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók þátt í keppninni. Í setningarræðu sinni bauð hún sig fram ef ske kynni að eitthvert lið vantaði liðsmann. Þórarinn Már segir að eitt lið, sem vantaði einmitt liðsmann, hafi gripið tækifæri og boðið henni að vera með. „Hún var með og kveikti meira að segja á tækinu,“ segir hann. Þess má geta að lið í keppninni fá aukastig ef liðsmenn eru af báðum kynjum.

Nemendur og kennarar í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands standa saman að hönnunarkeppninni ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert