Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna í lok síðustu sýningarinnar á leikritinu Mary Poppins á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. Risu áhorfendur úr sætum og fögnuðu leikendum með miklu lófataki. Var þetta tilfinningaþrungin stund og mátti greina tár á hvarmi þegar Mary Poppins var kvödd.
Sýningin í dag var sú 138. í röðinni og var uppselt á þær allar. Sýningin var sú mest sótta í sögu Leikfélags Reykjavíkur; 73.500 manns sáu Mary Poppins en byrjað var að sýna leikritið í febrúar á síðasta ári. Hafa einungis tvö önnur leikrit, Fló á skinni og Sex í sveit, náð að rjúfa 50.000 manna múrinn.
Var upphaflega ætlunin að ljúka sýningum í lok ársins 2013, en ákveðið var að framlengja sýningarleyfi að utan um tvo mánuði til að mæta eftirspurn. Í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu segir að sýningin sé sú viðamesta og flóknasta sem leikhúsið hafi nokkru sinni ráðist í, en alls voru um 50 manns sem stigu á svið og fjölmargir á bak við tjöldin. Þau Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson fóru með hlutverk Mary Poppins og Berts sótara.