Bjarna Sæmundssyni lagt

Hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni verður lagt í maí.
Hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni verður lagt í maí. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Stjórnendur Hafrannsóknastofnunar tilkynntu starfsmönnum á hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni fyrir helgi að skipinu yrði lagt í vor. Hugsanlegt er að hluta áhafnarinnar verði sagt upp störfum.

Egon Marcher, trúnaðarmaður áhafnarinnar á Bjarna Sæmundssyni, segir að þessi tíðindi hafi komið illa við áhöfnina. Á skipinu eru 13 starfsmenn og flestir hafa verið í áhöfn í áratugi. Hann segir litla von fyrir menn að finna aðra vinnu á sjó, ekki síst núna þegar útgerðarfélög víða um land eru að segja upp sjómönnum.

Egon segir að á fundinum fyrir helgi hafi komið fram að Hafró þurfi að fækka um 14 stöðugildi á sjó og í landi. Hann segir hugsanlegt að hluti áhafnarinnar á Bjarna fari í að leysa sjómenn á Árna Friðrikssyni af í sumar. Einnig sé inni í myndinni að einhverjir fari í launalaust leyfi en haldi ráðningarréttindum.

Egon segir fulla þörf á að halda uppi öflugum hafrannsóknum hér við landi. Menn átti sig kannski ekki á hversu mikið sé í húfi. Íslendingar séu búnir að taka upp vottorð um að þeir stundi sjálfbærar veiðar. Til að undirbyggja þessi vottorð þurfi hins vegar að stunda rannsóknir á lífríki sjávar. Eins segir hann mikilvægt að fylgjast vel með þeim breytingum sem séu að verða á norðurslóðum samfara hlýnun hafsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert