Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að gjaldeyrishöftin muni ekki fara í einu vetfangi. „Þau munu fara í skrefum, þannig að þetta verður tímabil þar sem þau smám saman hverfa,“ sagði hann í þættinum Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini Baldurssyni í dag, þar sem hann var gestur.
Ráðherrann sagði að afnám haftanna gæti hafist á þessu ári, en það færi eftir því hvort hægt væri að samstilla væntingar allra þeirra sem ættu í hlut.
„Við þurfum að tryggja að við séum með stöðugleika, að við séum ekki að reka ríkissjóð með miklum halla, að það sé ekki undirliggjandi gríðarlega mikill verðbólguþrýstingur, að það sé þokkaleg ró á vinnumarkaði, að við séum að gera það sem þarf til að draga fram fjárfestingar og skapa ný störf. Það þarf að fylgja í kjölfarið trú á framtíðina,“ sagði hann.
Ella myndu Íslendingar, fyrirtæki og aðrir vilja snúa krónunum sínum í erlendan gjaldeyri - með neikvæðum afleiðingum fyrir gengið - og geyma peningana sína í öðrum myntum.
„Við viljum opna fyrir sem allra mest frelsi og erum háð því eins og aðrar þjóðir að menn hafi trú á því sem er að gerast. Það er liður í því sem við erum að vinna að núna.“