Samtökin Regnbogabörn lögð niður

Stefán Karl Stefánsson, leikari
Stefán Karl Stefánsson, leikari

Ákveðið hefur verið að leggja samtökin Regnbogabörn niður. Regnbogabörn hafa verið rekin í yfir 12 ár, en samtökin eru fjöldasamtök áhugafólks um eineltismál.

Okkur þykja þetta erfiðar fréttir að færa en því miður verður ekki hjá þessari ákvörðun komist sökum fjármagnsskorts og annarra ástæðna sem ekki verður farið út í hér,“ segir Stefán Karl Stefánsson, stofnandi og formaður Regnbogabarna, á fésbókarsíðu samtakanna.

„Allri starsemi samtakanna verður því þegar í stað hætt og munu samtökin ekki svara síma eða tölvupóstsendingum áfram, því miður. Þeim sem eru með fyrirspurnir og þurfa á aðstoð að halda er bent á að hafa samband við hverfisskrifstofur, skólaskrifstofur og í alvarlegum tilfellum lögreglu. Skóla- og frístundasvið borgarinnar í Reykjavík og skólaskrifstofur síns sveitarfélags sem fara með slík mál.

Styrkjum verður skilað og samtökin nú gerð upp. Samtökin hafa verið rekin hallalaus frá upphafi svo að engar skuldir standa eftir nema símreikningur og skrifstofuleiga, allur annar kostnaður hefur verið greiddur að fullu.

Fyrirlestrar.is verður lokað innan skamms líka og munum við koma þeirri vefsíðu í góðar hendur með von um áhuga á áframhaldandi þróun á því verkefni sem yfir 20.000 Íslendingar hafa nú nýtt sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert