Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Stefáns Einars Stefánssonar, fyrrverandi formanns VR, og Söru Lindar Guðbergsdóttur, unnustu hans, gegn blaðamanni og ritstjóra DV fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Umfjöllun DV sneri að ráðningu Söru Lindar til VR í mars 2012.
Í umfjöllun DV og dv.is, sem birtist í desember 2012, sagði meðal annars að sú saga hefði gengið innan VR að ákveðið hefði verið að Sara Lind fengi starfið áður en ráðningarferlið hófst.
Stefán Einar svaraði umfjölluninni með grein í Morgunblaðinu. Í henni sagði hann meðal annars að DV hefði vegið að æru og starfsheiðri nafngreindra einstaklinga og krafðist hann þess að blaðið bæðist afsökunar á umfjölluninni.
Í yfirlýsingu sem Reynir Traustason, ritstjóri DV, sendi frá sér í kjölfarið sagði að í kröfu Stefáns hafi ekki verið bent á neinar rangfærslur í umfjöllun DV. „DV stendur við frétt sína og álítur það skyldu sína að fjalla um hvernig ráðningamálum er háttað hjá einu stærsta stéttarfélagi landsins,“ sagði í yfirlýsingunni. Einnig sagði að Stefán Einar hefði neitað að upplýsa á hvaða forsendum Sara Lind var ráðin umfram aðra og hver aðkoma Stefáns að ráðningarferlinu var.
Var kröfu Stefáns um afsökunarbeiðni hafnað.
Bæði stefndu þau Reyni, Inga Vilhjálmssyni, blaðamanni DV, og DV ehf. Í fyrramálið verður sameiginleg skýrslutaka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í báðum málunum og í framhaldinu málflutningur í máli Stefáns. Eftir hádegi verður svo málflutningur í máli Söru.
Í stefnum þeirra er byggt á því að með umfjöllun í prentmiðlinum DV og netútgáfunni dv.is hafi verið brotið gegn æru og friðhelgi einkalífs þeirra. Dómkröfur snúa að ómerkingu ummæla, refsingu samkvæmt viðeigandi ákvæðum, greiðslu miskabóta, greiðslu fjárhæðar til að standa straum af birtingu dóms í víðlesnu dagblaði og að DV verði gert að birta forsendur og dómsorð í bæði prentmiðli og netútgáfu. Þá er farið fram á greiðslu málskostnaðar.