„Við eigum engra annarra kosta völ,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, í samtali við mbl.is en frá og með 10. mars næstkomandi þurfa ferðamenn að greiða gjald fyrir að skoða hverasvæðið við Geysi í Haukadal. Garðar bendir á að álag á svæðið sé orðið mjög mikið auk þess sem gerð sé krafa um aukna þjónustu í tengslum við það. Allt kosti það fé.
Spurður hvort ákvörðunin um gjaldið hafi verið tekin í samráði við stjórnvöld segir Garðar að félagið hafi reynt að ræða þessi mál við þau en án árangurs. „Við getum bara ekki beðið lengur eftir því að þeir tjái sig. Við berum einfaldlega ábyrgð á því að skila þessu svæði inn í framtíðina og álagið er orðið það mikið. Bara í gær voru á milli 1.000 og 2.000 manns á svæðinu,“ segir hann. Gert er ráð fyrir því að gjaldið verði 600 krónur fyrir 17 ára og eldri en frítt fyrir 16 ára og yngri. Tekjunum verði varið til þess að vernda svæðið, aukinnar upplýsingagjafar til ferðamanna og bætts öryggis.
Stjórnvöld hafa kynnt áform um að innleiða svokallaða náttúrupassa. Garðar segir að komi þau áform til framkvæmda verði þau að tekin til skoðunar af félaginu. „Við berum einfaldlega ábyrgð á þessu og þurfum að bregðast við. Það er kallað eftir aukinni þjónustu. Við munum að sjálfsögðu skoða þessa náttúrupassa þegar og ef til þeirra kemur. En það liggur bara ekkert fyrir í þeim efnum.“
Spurður hvort markmiðið með ákvörðuninni sé meðal annars að ýta við stjórnvöldum segir Garðar: „Við höfum ávallt verið tilbúin að ræða við meðeiganda okkar í þessum efnum. En við erum líka að bíða eftir niðurstöðum úr hugmyndasamkeppni um svæðið sem verða opnaðar 6. eða 7. mars og munum í framhaldinu hefja þessa starfsemi. Við byrjum með átta manns í fullri vinnu og þetta einfaldlega kostar fé. Og við teljum okkur vera hógværa í þessu heimsóknargjaldi.“
Frétt mbl.is: Byrjað að selja aðgang 10. mars
Frétt mbl.is: Gjald fyrir að skoða Geysi