Sigmundur Davíð segir kröfuna góða áminningu um hvernig hefði getað farið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Krafa Hollenska seðlabankans og breska innistæðusjóðsins á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda er fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess að ekki var fallist á upphaflegar kröfur þessara aðila í Icesave-málinu. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Krafan nemur um 556 milljörðum króna og felur í sér lágmarkstryggingu fyrir hvern innistæðueiganda Icesave-reikninga í þessum tveimur löndum, auk vaxta og kostnaðar.

„Fyrst og fremst er þetta áminning um hversu miklir hagsmunir voru undir fyrir Íslendinga og mikilvægi þess að þeir skyldu ekki fallast á það á sínum tíma að setja þessar ábyrgðir yfir á ríkið. Því þá væri ekki um ræða kröfur á þennan sjóð, heldur á íslenska ríkið og skattgreiðendur,“ segir Sigmundur Davíð. „Þetta er góð áminning um hvað við erum í miklu betri stöðu nú, en við gætum verið ella.“

Hann minnir á að innistæðutryggingasjóðurinn hafi boðist til að greiða út til þessara aðila á sínum tíma, árið 2011. „En þeir féllust ekki á að taka við greiðslu á þeim tíma, en freista þess nú að fá sem mest úr þessum sjóði. En nú liggur fyrir að á honum er ekki ríkisábyrgð, þannig að það er alveg klárt að þetta mun aldrei lenda á íslenskum skattgreiðendum.“

Segir kröfuna hafa verið í farvatninu um hríð

En hvers vegna vilja þeir núna fá greitt úr þessum sjóði, en þáðu það ekki áður? „Hugsanlega hafa þeir talið það veikja stöðu sína að taka við greiðslum úr sjóðnum á meðan þeir voru að reyna að knýja íslenskan almenning til að taka þessar skuldir á sig. En núna, þegar það er ljóst að á þessu er ekki ríkisábyrgð,  þá snúa þeir sér aftur að sjóðnum.“

Sigmundur Davíð segir kröfuna hafa verið í farvatninu um hríð eftir að niðurstaða EFTA-dómstólsins lá fyrir. Spurður um hvort öllum Icesave-málarekstri verði lokið eftir að dómur hefur fallið í þessu máli segir hann svo vera. „Já og það ætti að vera ljóst að hvernig svo sem þetta mál fer, þá er ljóst að það er ekki ríkisábyrgð á bak við þetta.“

Krafa Hollenska seðlabankans og breska innistæðusjóðsins á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda …
Krafa Hollenska seðlabankans og breska innistæðusjóðsins á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda er fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess að ekki var fallist á upphaflegar kröfur þessara aðila í Icesave-málinu. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka