Sæunn Stefánsdóttir, viðskiptafræðingur og fyrrverandi alþingismaður, hefur verið ráðin forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Þetta kemur fram á vefsíðu Háskóla Íslands.
Sæunn lauk BS-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og hefur frá árinu 2007 starfað sem sérfræðingur á skrifstofu rektors skólans. Ennfremur var hún verkefnisstjóri aldarafmælis Háskóla Íslands árið 2011, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og síðar félagsmálaráðherra. Þá var hún þingmaður Framsóknarflokksins 2006-2007.
Fram kemur að Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands hafi tekið til starfa árið 1998. Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.