Miðstöð íslenskra bókmennta stendur fyrir átaki á Norðurlöndum í þeim tilgangi að fjölga þýðingum íslenskra bókmennta á norræn tungumál.
Næstu þrjú árin stendur Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir átaki á Norðurlöndum sem miðar að því að fjölga þýðingum íslenskra bókmennta á norræn tungumál.
Í fréttatilkynningu segir að í vor muni Miðstöð íslenskra bókmennta kynna íslenskar bókmenntir fyrir dönskum og sænskum útgefendum í samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Þar kemur fram rithöfundurinn Andri Snær Magnason, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin nýverið fyrir Tímakistuna, og bókmenntafræðingurinn Þorgerður E. Sigurðardóttir sem mun tala um strauma og stefnur í íslenskum samtímabókmenntum. Árið 2015 er fyrirhugað að kynna íslenskar bókmenntir fyrir útgefendum í Finnlandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum.
Jafnframt verður lögð áhersla á sýnileika íslenskra höfunda og bókmennta í dagskrá bókamessunnar í Gautaborg í Svíþjóð í haust. Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessa Norðurlanda en hana sækja árlega um 100.000 gestir. Íslenskur sýningarbás á bókamessunni verður í samstarfi við Íslandsstofu.