Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor, af kröfum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara. Málið var höfðað vegna skrifa Þorvaldar um orðróm þess efnis að Jón Steinar hafi lagt drög að kæru til Hæstaréttar sem síðar hafi verið notuð sem átylla til að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar.
Jón Steinar fór fram á að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk, Þorvaldi yrði gerð refsing, hann dæmdur til að greiða sér 2,5 milljónir króna í miskabætur og hálfa milljón til að kosta birtingu niðurstöðu dómsins í tveimur dagblöðum. Þá krafðist hann að sér yrði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.
Héraðsdómur hafnaði öllum kröfum Jóns Steinars og felldi málskostnað aðila niður.
Í tilkynningu sem Jón Steinar sendi fjölmiðlum segir: „Ef þessi dómur fær að standa geta menn framvegis án ábyrgðar og að ósekju dylgjað um refsiverða háttsemi tiltekinna dómara við dómsýslu þeirra. Sé þetta gildandi réttur í landinu er nauðsynlegt að almenningur fái vitneskju þar um.“
Þá segir að með ummælunum hafi Þorvaldur dylgjað þannig um alvarleg brot Jóns Steinars í embætti sem dómari að þau myndu hafa varðað hann starfsmissi og refsingu ef sönn væru. Dóminum verður áfrýjað til Hæstaréttar.
Frétt mbl.is: Sannleikskorn og sandkorn DV