„Þú ert dauður“ ekki hótun

Konan smitaðist af lifrabólgu C með notaðri sprautunál.
Konan smitaðist af lifrabólgu C með notaðri sprautunál. AFP

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað konu af ákæru um hótanir sem ákæruvaldið taldi að fælust í smáskilaboðum sem hún sendi karlmanni sem smitaði hana af lifrabólgu C. Konan sagði skilaboðin send í bræði og að í þeim hafi ekki falist nein hótun um að vinna manninum mein.

Forsaga málsins er sú að maðurinn var stuðningsfulltrúi hennar í vímuefnameðferð. Þau „féllu svo saman“, þ.e. hófu neyslu á nýjan leik, og voru í mikilli neyslu fíkniefna. Bæði sprautuðu þau sig með fíkniefnum.

Þegar þau höfðu verið í neyslu í nokkra daga og klárað hreinar nálar spurði konan manninn hvort óhætt væri að nota nál sem hann hafði sprautað sig með. Maðurinn sagði konunni að það væri óhætt.

Síðar þegar tekin voru úr konunni blóðsýni hjá lækni kom í ljós að hún var smituð af lifrabólgu C. Konan var ekki í nokkrum vafa um að hún smitaðist af manninum, og var ekki um það deilt. „Hafi hún talið að í þessum fréttum fælist nánast dauðadómur. Hafi hún farið beint í tölvu, þar sem hún hafi ekki verið með farsíma, og sent smáskilaboð í gegnum tölvu til brotaþola um að hann myndi einnig deyja, en hún hafi ályktað að hann myndi einnig deyja sökum lifrarbólgunnar eins og hún,“ segir í dómnum.

Konan sendi eftirfarandi skilaboð til mannsins: „Thu ert daudur helvitis hommatittur.. munt deyja bradum“.

Skilaboðin voru nafnlaus og kvaðst maðurinn hafa leitað strax til lögreglu þegar honum bárust þau. Í ákæru segir að skilaboðin hafi verið til þess fallin að vekja hjá manninum ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

Fyrir dómi sagði maðurinn að hefði nafn konunnar verið undir skilaboðunum hefði hann ekki óttast neitt. Kvaðst hann ekki hafa viljað að málið fengi þann framgang sem það fékk og vildi helst ekki vera í þeirri stöðu að gefa skýrslu fyrir dóminum. Hann hræddist konuna ekki og þau væru góðir vinir í dag.

Í niðurstöðu dómsins segir: „Gegn neitun ákærðu og með tilliti til allra annarra atvika í málinu telur dómurinn að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun um ásetning ákærðu um að valda brotaþola ótta um líf sitt og velferð. Breytir þar engu um hvernig brotaþoli upplifði skilaboðin þegar hann fékk þau. Ber því að sýkna ákærðu af þeirri háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru.“

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda konunnar, greiðast úr ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert