Vilja hægri beygju á rauðu ljósi

Fjóla Hrund Björnsdóttir.
Fjóla Hrund Björnsdóttir.

Ég tel tímabært að taka upp í umferðarlögum að leyfa hægri beygjur á rauðu ljósi í öllum beygjum og yrði það þá á ábyrgð ökumanna að ákveða hvenær mundi henta að beygja til hægri,“ sagði Fjóla Hrund Björnsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í jómfrúarræðu sinni undir liðnum störf þingsins en hún tók sæti á þing í fyrsta sinn í gær.

Benti hún á að æ fleiri þjóðir hefðu ákveðið að heimila hægribeygju á rauðu ljósi þegar tækifæri gæfist og að það hafi reynst vel í þeim löndum. „Ég tel að við Íslendingar ættum að skoða þá hugmynd og taka hana upp á öllum beygjuljósum. Ef það eru gatnamót sem þetta á ekki við um er hægt að setja upp þar til gert skilti. Þann ávinning sem verður af því að bæta hægri beygju í umferðarlögin munum við líklega sjá á umferðarþunganum og þegar lítil umferð er er auðvelt að beygja til hægri án þess að brjóta umferðarreglur.“

Haraldur Einarsson, samflokksmaður Fjólu, tók undir með henni. Dæmi um lönd sem leyft hefðu hægri beygju á rauðu ljósi væru Kína, Pólland og Þýskaland þar sem umferðarþungi væri mun meiri en á Íslandi. Benti hann á að á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík væri í raun leyfð hægribeygja á rauðu ljósi á þar til gerðri frárein fram hjá umferðarljósunum.

Þess má geta að þrír þingmenn sitja nú á Alþingi sem eru yngri en 26 ára. Auk Fjólu Hrundar og Haraldar er um að ræða Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur en öll eru þau á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert