Alls hafa um 467 milljónir króna sparast þar sem greiðslur í öllum bótaflokkum hafa verið stöðvaðar í kjölfar mála sem komið hafa til skoðunar hjá eftirlitsdeild Tryggingastofnunar ríkisins á árunum 2007 til 2013. Uppreiknað miðað við fimm ár nemur fjárhæðin 2,3 milljörðum króna.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru skráð 627 mál hjá eftirlitsdeild stofnunarinnar á árinu 2013 en þar af voru greiðslur stöðvaðar í 277 málum. Til samanburðar voru skráð 175 mál hjá eftirlitsdeild stofnunarinnar árið 2007 en af þeim voru greiðslur stöðvaðar í 11 málum.
Þetta kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.
Þar segir, að Tryggingastofnun telji að við mat á bótasvikum þurfi að líta til þess hve lengi greiðslur hefðu átt sér stað hefði ekki komið til þess að stöðva þær vegna brota. Greiðslutími Tryggingastofnunar sé í flestum tilfellum áratugir og því þurfi að mati stofnunarinnar að framreikna fjárhæðir til þess að leggja mat á áætlaðar óréttmætar greiðslur sem því nemur. Sú upphæð nemur alls 2,3 milljörðum kr. miðað við fimm ár.
Vigdís spyr m.a. að því hverjar séu refsingarnar verði einstaklingur uppvís að bótasvikum.
Í svari ráðherra segir, að sá sem láti hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína sem kunni að hafa áhrif á rétt hans innan atvinnuleysistryggingakerfisins fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði frá þeim degi sem viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar sé tilkynnt viðkomandi. Hið sama gildi þegar sá hinn sami láti hjá líða að tilkynna til Vinnumálastofnunar um þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum.
Þá segir, að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hafi stofnunin kært bótasvikamál sem fjársvikamál og vísað í því sambandi til 248. gr. almennra hegningarlaga, en þar er refsiramminn sex ára fangelsi.
Dómar í bótasvikamálum vegna greiðslna frá Tryggingastofnun hafa ekki gengið hér á landi og því er ekki unnt að svara því hver refsing yrði í slíkum málum.