„Það er skortur á góðum iðnaðarmönnum. Sú staða mun því koma upp í vor að eftirspurn verður eftir lærðum iðnaðarmönnum í byggingariðnaði. Þetta gæti kallað á innflutning vinnuafls sem sumir segja þegar hafinn. Við viljum frekar sjá að þeir sem flutt hafa til útlanda eftir þrengingar síðustu ára snúi aftur heim.“
Þetta segir Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs hjá Samtökum iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er uppsveifla í byggingariðnaði en fram kemur í blaðinu, að á næstu misserum verði byggðar minnst 900 íbúðir í Reykjavík fyrir tugmilljarða króna.
Verkefnin munu skapa hundruð starfa, en að mati Vinnumálastofnunar voru 466 manns í mannvirkjagerð án vinnu í desember. Friðrik bendir á að í þeim hópi sé ekki eingöngu sérhæft vinnuafl.