Það er víða mjög hvasst á Vestfjörðum og í Dalasýslu en þar tók að hvessa í nótt. Vindhraðinn er um 23-25 metrar á sekúndu og er spáð stormi á þessum slóðum og víðar í dag og á morgun.
Ekkert ferðaveður er víða á landinu og Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðs sem féll í Mánárskriðum í gærkvöldi.
Björgunarsveitir þurftu að aðstoða ferðafólk niður af heiðum víðsvegar í gærkvöldi í nótt. Má þar nefna Steingrímsfjarðarheiði, Gemlufallsheiði, Svínadal, Öxnadalsheiði og Fjarðarheiði.
Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands hefur vindur farið í 36 metra á sekúndu í hviðum á Hraunsmúla í Staðarsveit en búast má við því að það verði einnig hvasst á sunnanverðu Snæfellsnesi í dag, við Breiðafjörð og undir Eyjafjöllum og Öræfum.
Það snjóar fyrir vestan og það er slydduéljagangur fyrir norðan og austan, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Veðurstofan varar við snörpum vindhviðum víða á Vestfjörðum og einnig í Öræfasveit seinni partinn og undir Eyjafjöllum í kvöld.
„Norðaustan 15-23 m/s, hvassast á Vestfjörðum og SA-landi síðdegis. Snjókoma eða él N-lands, slydda eða rigning með köflum fyrir austan, en bjart með köflum SV-til. Hiti víða 0 til 4 stig, en vægt frost til landsins.“