Fá stjórnendatryggingu ekki greidda

mbl.is/Frikki

Hæstiréttur hefur sýknað Tryggingamiðstöðina af kröfu þriggja fyrrverandi stjórnenda Glitnis, þeirra Jóns Sigurðssonar, Lárusar Welding og Þorsteins M. Jónssonar, um greiðslu kostnaðar á grundvelli svokallaðrar stjórnendatryggingar.

Þá er þeim gert að greiða Tryggingamiðstöðinni óskipt samtals 6.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Lárus er fyrrverandi bankastjóri Glitnis og Jón og Þorsteinn sátu í stjórn bankans.

Í stefnu, líkt og kemur fram í dómi Hérðasdóms sem féll 16. apríl 2013, var á því byggt að samkvæmt ákvæðum stjórnendatryggingar Glitnis hf. bæri Tryggingamiðstöðinni að greiða þeim allan kostnað sem þeir hefðu þegar orðið fyrir og myndu verða fyrir vegna málshöfðana á hendur þeim hér á landi og í Bandaríkjunum. Málið væri höfðað til að fá skorið úr um greiðsluskyldu Tryggingamiðstöðvarinnar án þess að sú krafa tæki til alls áfallins kostnaðar en þremenningarnir áskildu sér rétt til að koma að frekari kröfum með framhaldsstefnu eða í öðru dómsmáli. Á þessu stigi var ekki krafist viðurkenningar á bótaskyldu Tryggingamiðstöðvarinnar kæmi til þess að þremenningarnir yrðu taldir bótaskyldir vegna starfa þeirra hjá Glitni banka hf.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Glitnir hf. hafi keypt á árinu 2008 svokallaða stjórnendatryggingu af Tryggingamiðstöðinni með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Í skilmálum tryggingarinnar kom fram að hún gilti einvörðungu um kröfur á hendur stjórnendum og yfirmönnum sem gerðar hefðu verið á vátryggingartímanum.

Eftir að gildistíma tryggingarinnar lauk keypti skilanefnd bankans ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur af öðrum vátryggjanda. Vegna málsóknar Glitnis hf. á hendur Jóni, Lárusi og Þorsteini á árinu 2010 rituðu hinir síðarnefndu Tryggingamiðstöðinni bréf þar sem lýst var þeim skilningi að þeir teldu kröfur Glitnis hf. auk kostnaðar vegna málsvarnar sinnar falla undir gildissvið stjórnendatryggingarinnar frá 2008. Því var hafnað af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar.

Höfðuðu Jón, Lárus og Þorsteinn því mál og kröfðust tiltekinnar greiðslu úr hendi Tryggingamiðstöðvarinnar.

Eftir skiptingu sakarefnis í héraði var ágreiningur aðila tvíþættur. Annars vegar var deilt um það hvort fullnægt væri því skilyrði H-liðar III. hluta vátryggingaskilmála stjórnendatryggingarinnar fyrir framlengdum tilkynningarfresti í 72 mánuði að ekki hefði verið keypt önnur stjórnendatrygging og hvort vátryggingavernd Jóns, Lárusar og Þorsteins samkvæmt tryggingunni væri þannig ennþá virk.

Hins vegar laut ágreiningur þeirra að því hvaða merking skyldi lögð í orðin „who retired“ samkvæmt H-liðnum.

Í niðurstöðu Hæstaréttar var það rakið að til þess að tilkynningafrestur gæti framlengst í 72 mánuði frá lokum vátryggingartímabils þyrfti fimm skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt ákvæðinu og þeim öllum í senn.

Í fyrsta lagi að Glitnir hf. hefði hvorki endurnýjað hjá Tryggingamiðstöðinni upphaflega vátryggingu né keypt í hennar stað aðra sem veitti stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu.

Í öðru lagi að ekki hefði verið keyptur viðbótar tilkynningarfrestur samkvæmt A-lið III. hluta vátryggingaskilmálanna.

Í þriðja lagi að um væri að ræða stjórnendur og yfirmenn sem hefðu látið af störfum hjá vátryggingataka áður en vátryggingin hefði fallið úr gildi.

Í fjórða lagi að um væri að ræða kröfu sem hefði að öðrum kosti fallið undir gildissvið vátryggingaskírteinisins.

Í fimmta lagi að á meðan stjórnandi eða yfirmaður hefði starfað hjá vátryggingartaka hefði átt sér stað saknæm háttsemi af hans hálfu eða að því væri haldið fram að slík háttsemi hefði átti sér stað.

Vísaði Hæstiréttur til þess að Glitnir hf. hefði á árinu 2009 keypt aðra stjórnendatryggingu og hefði því verið keypt ný trygging hjá öðru vátryggingafélagi í stað hinnar upphaflegu í skilningi H-liðar III. hluta stjórnendatryggingarinnar frá 2008. Væri því samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi H-liðarins ekki fullnægt því skilyrði að ekki hefði í stað upphaflegu tryggingarinnar verið keypt önnur trygging sem veitti stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu.

Skipti í því sambandi ekki máli þótt nýja tryggingin væri ekki að öllu leyti sama efnis og sú fyrri.

Var Tryggingamiðstöðin þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfu Jóns, Lárusar og Þorsteins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert