„Af hverju má ekki borga vel fyrir krefjandi vinnu eins og að ganga með barn?“ Þessari spurningu varpaði Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, fram eftir fyrirlestur um staðgöngumæðrun í hádeginu í dag. Spurningunni hefur ekki verið svarað.
Jónína kynnti ásamt Helgu Finnsdóttur, MA í mannfræði og sérfræðingi í mannauðs- og launamálum hjá Samgöngustofu, niðurstöðu rannsóknar á staðgöngumæðrum sem og hugmyndir fjölmiðla og áhugafólks um staðgöngumæðrun um konur sem ganga með barn fyrir aðra.
Í máli sínu vísaði Helga meðal annars til fréttar DV frá 1984. Í fréttinni var greint frá franskri staðgöngumóður sem fékk greitt fyrir að ganga með barnið: „Frakkar hafa nú eignast sína fyrstu „staðgengilsmóður“ og heitir hún Patricia og er 21 ars. Móðir af þessu tagi er kona sem „lánar annarri konu leg sitt“. [...] Fyrir erfiðið fær hún svo greidda um 50 þúsund franka.“
Helga sagði að þessi grein, og önnur sem birtist í sama blaði tveimur mánuðum síðar, hefði alveg eins getað birst í dagblöðum í dag. „Þarna er fjallað um sömu atriði og sömu erfiðu spurningar vakna.“
Jónína sagði að hér á landi væri gjarnan vísað til þess, í hita leiksins, að engin vandamál fylgdu staðgöngumæðrun. Það væri hins vegar rangt og kæmi meðal annars fram í umsögn Staðgöngu, stuðningsfélags staðgöngumæðrunar á Íslandi, um þingsályktunartillögu sem lögð fram fram og samþykkt á Alþingi.
Hún sagði að það hefði sýnt sig bæði í Ástralíu og Bretlandi, þar sem staðgöngumæðrun var leyfð, að engu að síður leituðu fleiri Ástralir og Bretar en áður til Indlands eftir staðgöngumæðrum. Komi þar til ýmsar ástæður, meðal annars að auðveldara sé að tryggja nafnleynd í Indlandi og ekki vilji allir hafa staðgöngumóðurina í sínu nánasta umhverfi. Þá sé þjónusta í Indlandi hröð og kostnaður jafnvel lægri, þrátt fyrir að þar sé ekki krafa um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
Í þingsályktunartillögunni sem þingmenn samþykktu segir: „Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.“ Starfshópurinn er að störfum og í lok janúar flutti Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skýrslu um gang mála.
Kristján sagði meðal annars: „Það er vandasamt og í mörgu flókið að tryggja að eingöngu verði um að ræða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og um leið takmarka möguleika til að fara utan og nýta verslun með staðgöngumæðrun. Þá þarf að hyggja að mörgu til að tryggja að réttindi allra séu virt en barnið sjálft hlýtur þar að vera í öndvegi, samanber hina mikilvægu réttarreglu um að það ráði ávallt sem barninu er fyrir bestu. En til að Alþingi geti tekið vel ígrundaða ákvörðun við frekari vinnslu málsins þarf að svara ýmsum spurningum eins og nefnt hefur verið.“
Það að svara þurfi spurningum var eiginlega inntakið í hádegisfyrirlestrinum. „Okkar niðurstaða er að það sé skortur á rannsóknum,“ sagði Jónína og að þær rannsóknir sem gerðar hafi verið byggist á mjög litlu úrtaki. Lítið sé um rannsóknir á upplifun og aðstæðum staðgöngumæðra og það sé vöntun á langtímarannsóknum á heilsu og velferð staðgöngumæðra.
Það að lögleiðing í öðrum löndum virðist auka ásókn í erlendar staðgöngumæður veki einnig athygli og þá staðfesti allar rannsóknir að framkvæmdin sé ekki án vandamála. Staðgöngumæður séu almennt í lægri efnahags-, menntunar- og félagslegri stöðu en verðandi foreldrar sem sé staðreynd en um það sé deilt hvað sú staðreynd hafi að segja.
Hún sagði það staðreynd að vandamál fylgdu staðgöngumæðrun, því yrði ekki neitað. Svo þyrfti að ræða um það hversu mörg og mikil vandamálin væru og hvað væri ásættanlegt. „Við erum sammála um að það sé mikil vinna að ganga með barn. Mér finnst það mjög ólíklegt að það sé ekki sárt að láta frá sér barn sem maður hefur gengið með, og bæta því ofan á meðgönguna. Af hverju má ekki fá vel greitt fyrir það?“
Þá benti hún á þá óljósu línu sem er á milli staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og hagnaðarskyni. Jónína sagðist ekki geta séð fyrir sér hvernig eftirliti væri háttað með því að staðgöngumæðrun hér á landi yrði einungis í velgjörðarskyni. „Það kallar á persónunjósnir að ganga úr skugga um að staðgöngumóðirin hagnist ekki, fylgjast þar með gjöfum verðandi foreldra og annað slíkt. Ég veit ekki hvernig slíkt eftirlit ætti að vera. Sjálf tel ég að það sé meiriháttar mál að láta frá sér barn og þá ætti viðkomandi að minnsta kosti að fá vel greitt fyrir það.“