Ákveðið var á fundi trúnaðarmanna og formanna kennarafélaga í framhaldsskólum í dag að atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls fari fram í næstu viku. Verði af verkfalli, myndi það hefjast eftir um mánuð. Formaður Félags framhaldsskólakennara segir markmiðið að komast hjá verkfalli.
Að sögn Aðalheiðar Steingrímsdóttur, formanns Félags framhaldsskólakennara er undirbúningur að atkvæðagreiðslunni þegar hafinn, en hún mun fara fram dagana 18.-21. febrúar. Hún segir fundinn hafa verið vel sóttan, þar hafi verið fulltrúar allra framhaldsskóla landsins og komið hafi fram víðtækur stuðningur við samningsáherslur samninganefndar framhaldsskólakennara.“
„Markmið okkar er tvímælalaust að gera kjarasamning við eðlilegar aðstæður, en okkar mat á stöðunni er núna þannig að það þurfi að setja þrýsting á kröfurnar til að koma hreyfingu á hlutina. Það er vitaskuld tími framundan til að gera kjarasamning við eðlilegar aðstæður. Það er mikilvægt að nú haldi allir ró sinni, að allir séu yfirvegaðir og kappkosti að ná kjarasamningi án þess að til verkfalls komi. Það er ennþá tími til þess.“
„Krafa okkar er að stjórnvöld nesti sína fulltrúa strax með umboð til að gera kjarasamninga um leiðréttingu á kjörum og umbætur á rekstri skólanna.“
Spurð um hvenær verkfallið myndi hefjast, ef af því verður, segir Aðalheiður að það yrði eftir um mánuð. „Það er ákveðinn tilkynningafrestur sem þarf að líða samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá því að verkfall er tilkynnt og þar til það getur hafist. Með þessum fresti er þetta tæpur mánuður héðan í frá.“
Kjaraviðræður Félags framhaldsskólakennara við ríkið hafa staðið yfir síðan í desember í fyrra og var þeim síðan vísað til ríkissáttasemjara í lok janúar og rann samingur þeirra út 31. janúar. Kennarar fara fram á um 17% launahækkun, sem þeir segja að sé sú hækkun sem þurfi að verða á launum þeirra þannig að þau verði svipuð og laun sambærilegra stétta hjá ríkinu. Tilboð ríkisins hljóðar upp á 2,8% hækkun, svipaða og aðfarasamningurinn við ASÍ. Þessu tilboði hafa kennarar vísað algerlega á bug.