Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að refsistefnan í fíkniefnamálum á Íslandi sé ekki að virka. Hann segir vandamálið ekki gera annað en að vaxa, en þetta sé annar stærsti brotaflokkurinn hér á landi á árunum 2007 til 2013.
Þetta sagði Kristján á fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, sem fór fram í kvöld.
Fram kom í ræðu ráðherra, að það væri óþreyja eftir betra ástandi og að stefna eigi að því að reyna afglæpavæða fíkniefni.
Kristján kveðst vera hallur undir þá skoðun að þeir sem leiðist í þessa ógæfu beri að líta á sem sjúklinga sem ríkið þurfi að aðstoða.
„Grundvallarastefna Sjálfstæðisflokksins er að hjálpa einstaklingum til sjálfshjálpar og einstaklingar hafi frelsi til athafna,” sagði Kristján. Nú væri gengið á rétt ýmissa Íslendinga.
Hann segir að Ísland geti byggt á reynslu annarra ríkja þar sem þessi stefna hafi gengið vel.
Hann tók hins vegar fram að hann væri á móti því að lögleiða fíkniefni. Menn verði hins vegar að takast á við raunveruleikann eins og hann sé.