Telja aðild að ESB ekki til hagsbóta

AFP

Fleiri Íslendingar telja að innganga í Evrópusambandið yrði Íslandi ekki til hagsbóta en þeir sem telja að svo yrði samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir sambandið og birtar voru á dögunum. 48% telja að innganga í ESB hefði slæm áhrif á hagsmuni Íslands en 40% að hún hefði góð áhrif. Í sömu könnun var einnig spurt hvort gott væri fyrir Ísland að ganga í sambandið og þá svarar þriðjungur því jákvætt, þriðjungur neikvætt og um þriðjungur hvorki neikvætt né jákvætt.

Sömuleiðis er spurt um ímynd ESB og telja 38% Íslendinga hana vera góða samkvæmt könnuninni. Þar af 33% frekar góða og 5% mjög góða. 24% telja ímynd sambandsins hins vegar vera frekar slæma og 8% mjög slæma. Meðaltalið innan ESB er svipað. 31% telur ímynd sambandsins góða en 28% telja hana slæma. Verst er álitið á ESB meðal íbúa Grikklands og Kýpur.

Þá telja 38% Íslendinga að mál séu á leið í rétta átt innan ESB og 35% að þau séu á rangri leið. Sé horft til meðaltals íbúa sambandsins eru þeir mun svartsýnni í þeim efnum. Þannig telja 47% þeirra að þróunin innan ESB sé á rangri leið en 26% að hún sé á leið í rétta átt. 47% Íslendinga telja hins vegar að hlutirnir séu á réttri leið hér á landi á sama tíma, og hefur fækkað mjög, en 43% telja svo ekki vera.

Fleiri Íslendingar treysta hins vegar ekki ESB samkvæmt könnuninni en þeir sem það gera. 49% treysta ekki sambandinu en 40% bera traust til þess. Miðað við meðaltal íbúa ESB treysta þeir sambandinu hins vegar verr ef marka má niðurstöðurnar. 58% þeirra treysta ESB ekki á meðan 31% treystir sambandinu.

Um er að ræða svokallaða Eurobarometer-skoðanakönnun ESB sem gerð er tvisvar á ári. Sá hluti sem fjallar um Ísland er unninn fyrir sambandið af Capacent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert