Tjáning skoðana varði ekki fangelsi

Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem lagt er til að þeim ákvæðum laganna sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Þess í stað verði gert ráð fyrir sektum.

Fram kemur í greinargerð að flutningsmenn telji fangelsisdóma í þessum efnum ekki standast nýrri viðhorf til mannréttinda með hliðsjón af stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. „Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því með skýrum hætti yfir að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga.“

Þá segir ennfremur: „Vert er að vekja athygli á því að þau réttindi sem geta skarast við tjáningarfrelsið, til að mynda æra manna, njóta einnig verndar að einkarétti og geta menn sem telja að sér vegið höfðað einkamál og krafist bóta eftir atvikum. Það er ekki ætlun flutningsmanna að hrófla við þeim réttindum, enda með frumvarpinu einungis lagt til að ekki verði lengur unnt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir tjáningu skoðana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert