Uppgreiðslugjald í berhögg við lög

Höfuðstöðvar Arion banka
Höfuðstöðvar Arion banka Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Arion banki krafði lántakanda um uppgreiðslugjald vegna greiðslu inn á fasteignalán sem tekið var eftir 1. nóvember 2013, en þá tóku ný lög um neytendalán gildi. Samkvæmt lögunum má ekki taka gjald af uppgreiðslu láns séu greiðslurnar undir einni milljón króna á ári.

Axel Kristinsson greiddi inn á lán sem hann og kærasta hans tóku til íbúðarkaupa í desember í fyrra, eftir að nýju lögin tóku gildi. Upphæðin sem þau greiddu var töluvert undir þeirri fjárhæð sem tilgreind er í lögunum.

Nokkrum dögum eftir að þau greiddu inn á lánið fengu þau kvittun fyrir uppgreiðslugjaldi, sem nam 1% af greiddri upphæð. „Bankinn lét okkur ekki vita af fyrra bragði af þessu gjaldi,“ segir Axel. „Við hringdum í þjónustuverið og fengum þær skýringar að um galla í tölvukerfinu hefði verið að ræða og að unnið væri að því að laga þetta.“

Mannleg mistök

Mbl.is fékk þær skýringar hjá fulltrúa Arion banka að innheimta þessa gjalds stafaði af mannlegum mistökum. Í svörum frá bankanum segir meðal annars:

„Innleiðing nýrra laga um neytendalán er umfangsmikið verkefni og kallaði á töluverðar breytingar á verklagi og kerfum bankans. Innleiðingin hefur gengið vel en auðvitað er það svo að upp hafa komið einstaka atvik [...] þar sem betur hefði mátt fara. Í þessu tilviki var einfaldlega um mannleg mistök að ræða sem voru leiðrétt.“

Axel segir bankann staðið við leiðrétta þessi mistök og að þeim hafi verið send kvittun fyrir leiðréttingunni. Hann bætir við að málið snúist ekki um nokkra þúsundkalla, heldur sé þetta spurning um að geta borið traust til bankans sem maður hefur valið og skuldbundið sig til að eiga viðskipti við.

Benda á tölvukerfin

Axel segir þessi svör bankans þó ekki í samræmi við þær upplýsingar sem hann fékk frá bankanum, þar sem ítrekað var bent á að uppfærsla á tölvukerfum hefði ekki gengið í gegn. „Það er ótrúlegt að bankinn hafi ekki getað uppfært kerfin á þeim þremur mánuðum sem eru liðnir frá því lögin tóku gildi,“ segir Axel. Lögin sem um ræðir voru samþykkt 18. mars 2013, fyrir tæpum 11 mánuðum.

Matthildur Sveinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendastofu, segir skýrt í nýju lögunum að ekki megi innheimta uppgreiðslugjald af neytendum þegar þeir greiða inn á lán við þessar kringumstæður. Hún kannast ekki við að að Neytendastofu hafi borist ábendingar um að þetta hafi hent fleiri neytendur, en hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart þessu.

Bankarnir hafi þó haft töluverðan tíma til að búa sig undir gildistöku laganna. „Gildistökunni var frestað því þetta var svo mikil forritunarvinna fyrir bankana,“ segir Matthildur, en vekur athygli á að við uppgreiðslu sé mikilvægt að horfa til þess hvenær lánin voru tekin, því nýju lögin eiga aðeins við um lán sem voru tekin eftir gildistöku laganna 1. nóvember í fyrra.

Axel Kristinsson
Axel Kristinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert