95% meðalrúmanýting á LSH

mbl.is/Ómar

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans (LSH), segir að mikið álag hafi verið á spítalanum í vikunni enda tími umgangspesta. Hann segir að meðalrúmanýting á sjúkrahúsi eins og LSH þyrfti að vera um 80-85% svo unnt sé að mæta álagstoppum eins og þessum.

„Hins vegar sé raunin hjá okkur nærri 95% meðalrúmanýting, svo svigrúm er lítið,“ skrifar Páll í pistli sem birtist á vef LSH.

„Við þessar aðstæður fundar hluti framkvæmdastjórnar daglega til að leita lausna. Í þessari viku höfum við gripið til þeirra ráðstafana að fjölga rúmum á nokkrum legudeildum auk þess sem Vífilsstaðir eru nú fullnýttir, nokkru fyrr en ráð var fyrir gert. Allir hafa lagst á eitt og það er ánægjulegt að finna hversu lausnamiðað og samhæft starfsfólkið allt er,“ skrifar hann ennfremur. 

Þá bendir hann á, að í vikunni hafi komið ánægjulegar fréttir af gangi mála á lyflækningasviði.

„Í haust var það mikið í fréttum og í kjölfarið var ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að mæta miklu álagi og manneklu. Mörg verkefni eru enn óleyst en aðgerðir eru farnar að skila ánægjulegum árangri.  Það er sérstaklega gleðilegt að sjá þann fjölda deildarlækna sem sækist eftir starfi á sviðinu en 25 sóttu um 12 stöður. Sömuleiðis er dýrmætt að nýir sérfræðilæknar hafa ráðist til sviðsins og unnið er að því að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga. Fjölmörg verkefni eru í góðum farvegi og gefur það vonir um að nú sé að vora í þessari mikilvægu starfsemi,“ skrifar hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert