„Eru mannréttindi til?“

Ragnar Aðalsteinsson var meðal þeirra sem hélt erindi á málþingi …
Ragnar Aðalsteinsson var meðal þeirra sem hélt erindi á málþingi Orator. mbl.is/Árni Sæberg

„Eru mannréttindi til?“ Þetta var útgangspunktur og yfirskrift hátíðarmálþings Orator, félags laganema, sem haldið var í dag.

Á málþinginu leituðu Ragnar Aðalsteinsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Brynhildur G. Flóvenz svara við spurningunni og birtist umfjöllun um erindin á mbl.is um helgina.

Við upphaf málþingsins veitti Árni Grétar Finnsson, varaformaður Orator, kennsluverðlaun Orator. Jón Þór Ólason fékk verðlaunin eftir tilnefningar laganema, en þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin eru veitt. Áður hafa Hafsteinn Þór Hauksson og Páll Sigurðsson hlotið verðlaunin.

Meðal þess sem laganemar nefna til rökstuðnings vali sínu á Jóni Þóri var að hann hvetur til umræðu í tímum, brýtur upp fyrirlestraformið og kemur fram við nemendur á jafningjagrundvelli. Þá væri einnig nauðsynlegt að mæta tímanlega í tíma hjá honum, því mætingin væri svo góð.

Jón Þór þakkaði fyrir sig í ræðu og segist auðmjúkur, „eins auðmjúkur og Þingeyingur getur orðið,“ bætti hann við. Jón Þór hefur kennt við deildina í 14 ár. "Það hefur verið einstakur heiður að kenna ykkur," segir Jón Þór við áhorfendur og talar til nemenda sinna. Hann segir nemendurna ekki ólíka frönskum vínum, misgóða eftir árum.

Foreldrar eða afkvæmi?

Ragnar Aðalsteinsson tæpti á nokkrum þeim ágreiningsefnum sem eru á sviði mannréttinda. „Álitaefnin eru einkum um tilvist og fræðilega undirstöðu mannréttinda, skilgreinungu mannréttindahugtaksins, uppruna mannréttinda og einkum það hvort mannréttindi séu „afkvæmi réttarins,“ eða eigi sér tilvist í ríki náttúrunnar fyrir stofnun ríkja og séu því „foreldrar“ lögfestra réttinda.

„Við höfum á undanförnum misserum fylgst með því hvernig almenningur í Túnis, Lýbíu, Egyptalandi, Jemen, Bahrain og Sýrlandi hefur þyrpst út á götur til andófs gegn valdhöfunum,“ segir Ragnar. „Fæstir mótmælendanna hafa vitneskju um mannréttindi, hvorki í stjórnarskrá né í alþjóðlegum gerningum.“

Fólkið á torgunum krefst hins vegar réttlætis og virðingar. „Með þeim orðum krafðist það meðal annars réttarins til lífs, hugsanafrelsis, tjáningarfrelsis og félaga- og fundafrelsis, en einnig réttarins til viðunandi félagslegra og efnahagslegra lífskjara og menntunar til að geta lifað af virðingu,“ segir hann.

„En hvaðan kemur hvöt fólksins á torgunum, sem þekkir ekki til mannréttinda, til að gera kröfur á hendur valdinu um viðurkenningu réttinda, sem má fullkomlega jafna til mannréttinda í lagaskilningi? Er ekki uppspretta þessarar hvatar að finna í siðvitundinni, það er í meðfæddum siðferðilegum viðhorfum, sem ekki þurfa á neinum lagastuðningi að halda?“

Umræða um uppruna

 Umræðuna um mannréttindi segir hann snúast um skilning manna á því hvenær og hvernig mannréttindi urðu til. „Þeir sem aðhyllast kenningar náttúruréttarmanna telja að upphaf mannréttinda sé óviðkomandi stofnun ríkja, sem settu sér lög,“ segir Ragnar. „Manneskjur njóti þeirra af því að þær eru manneskjur.“

Karl Marx hélt því fram að réttindi gætu ekki komið á undan stofnun ríkis. Jeremy Bentham sagði náttúruréttindi vera „vitleysu“ og náttúruréttindi og ólögboðin réttindi „vitleysu á stultum.“ Vildarréttarmenn segir hann telja mannréttindi ekki vera ásköpuð manneskjunni, heldur ákvarðist af mannasetningum, í raun ákvörðunum valdhafa.

„Átökin snúast ekki einungis um tilvist þeirra í heild sinni og hvort einungis séu til lögákveðin mannréttindi. Um það er einnig deilt hvort svonefnd jákvæð mannréttindi, þ.e. efnahagsleg og félagsleg réttindi, geti fallið undir mannréttindahugtakið.“

Hann segir mannréttindi meðal annars hafa verið skilgreind þannig, að þau séu siðferðisleg trygging eða ábyrgð, sem allar manneskjur í öllum löndum njóta einungis vegna þess að þær eru manneskjur. „Mannréttindi eru iðulega talin algild í þeim skilningi að allir hafi þau og allir eigi að njóta þeirra,“ segir Ragnar. „Okkur sem höfum vanist kenningum vildarréttarsinna, þar sem ríkið er allt umlykjandi og eingin mannréttindi viðurkennd, sem ekki eiga sér stoð í réttarreglu.“

Æðri ríkinu eða háð tilvist þess

Hann gerði að umtalsefni uppruna mannréttinda, og ólíka sýn heimspekinganna Amartya Sen og Norberto Bobbio á hann. „Þessir fræðimenn eru á öndverðu máli um uppruna mannréttinda og samband siðferðilegra réttinda og mannréttinda. Sen telur mannréttindi hafa verið til áður en ríki voru stofnuð og lögfesting þeirra sé ekki skilyrði fyrir tilvist þeirra,“ segir Ragnar.

„Bobbio telur öll mannréttindi vera mannasetningar og að stofnun ríkis með viðeigandi valdi til að setja lög sé skilyrði tilurðar mannréttinda. Hvorugur þessara heimspekinga dregur í efa tilvist mannréttinda,“ segir Ragnar. „Þeir eru ósammála um grundvöll þeirra. Þeim hefur ekki tekist, frekar en öðrum fræðimönnum, að komast að hinni einu óumdeildu niðurstöðu um fræðilegan eða heimspekilegan grundvöll mannréttinda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert