„Eru mannréttindi til?“

Ragnar Aðalsteinsson var meðal þeirra sem hélt erindi á málþingi …
Ragnar Aðalsteinsson var meðal þeirra sem hélt erindi á málþingi Orator. mbl.is/Árni Sæberg

„Eru mann­rétt­indi til?“ Þetta var út­gangspunkt­ur og yf­ir­skrift hátíðar­málþings Orator, fé­lags laga­nema, sem haldið var í dag.

Á málþing­inu leituðu Ragn­ar Aðal­steins­son, Odd­ný Mjöll Arn­ar­dótt­ir og Bryn­hild­ur G. Flóvenz svara við spurn­ing­unni og birt­ist um­fjöll­un um er­ind­in á mbl.is um helg­ina.

Við upp­haf málþings­ins veitti Árni Grét­ar Finns­son, vara­formaður Orator, kennslu­verðlaun Orator. Jón Þór Ólason fékk verðlaun­in eft­ir til­nefn­ing­ar laga­nema, en þetta er í þriðja sinn sem verðlaun­in eru veitt. Áður hafa Haf­steinn Þór Hauks­son og Páll Sig­urðsson hlotið verðlaun­in.

Meðal þess sem laga­nem­ar nefna til rök­stuðnings vali sínu á Jóni Þóri var að hann hvet­ur til umræðu í tím­um, brýt­ur upp fyr­ir­lestra­formið og kem­ur fram við nem­end­ur á jafn­ingja­grund­velli. Þá væri einnig nauðsyn­legt að mæta tím­an­lega í tíma hjá hon­um, því mæt­ing­in væri svo góð.

Jón Þór þakkaði fyr­ir sig í ræðu og seg­ist auðmjúk­ur, „eins auðmjúk­ur og Þing­ey­ing­ur get­ur orðið,“ bætti hann við. Jón Þór hef­ur kennt við deild­ina í 14 ár. "Það hef­ur verið ein­stak­ur heiður að kenna ykk­ur," seg­ir Jón Þór við áhorf­end­ur og tal­ar til nem­enda sinna. Hann seg­ir nem­end­urna ekki ólíka frönsk­um vín­um, mis­góða eft­ir árum.

For­eldr­ar eða af­kvæmi?

Ragn­ar Aðal­steins­son tæpti á nokkr­um þeim ágrein­ings­efn­um sem eru á sviði mann­rétt­inda. „Álita­efn­in eru einkum um til­vist og fræðilega und­ir­stöðu mann­rétt­inda, skil­grein­ungu mann­rétt­inda­hug­taks­ins, upp­runa mann­rétt­inda og einkum það hvort mann­rétt­indi séu „af­kvæmi rétt­ar­ins,“ eða eigi sér til­vist í ríki nátt­úr­unn­ar fyr­ir stofn­un ríkja og séu því „for­eldr­ar“ lög­festra rétt­inda.

„Við höf­um á und­an­förn­um miss­er­um fylgst með því hvernig al­menn­ing­ur í Tún­is, Lýb­íu, Egyptalandi, Jemen, Bahrain og Sýr­landi hef­ur þyrpst út á göt­ur til and­ófs gegn vald­höf­un­um,“ seg­ir Ragn­ar. „Fæst­ir mót­mæl­end­anna hafa vitn­eskju um mann­rétt­indi, hvorki í stjórn­ar­skrá né í alþjóðleg­um gern­ing­um.“

Fólkið á torg­un­um krefst hins veg­ar rétt­læt­is og virðing­ar. „Með þeim orðum krafðist það meðal ann­ars rétt­ar­ins til lífs, hugs­ana­frels­is, tján­ing­ar­frels­is og fé­laga- og funda­frels­is, en einnig rétt­ar­ins til viðun­andi fé­lags­legra og efna­hags­legra lífs­kjara og mennt­un­ar til að geta lifað af virðingu,“ seg­ir hann.

„En hvaðan kem­ur hvöt fólks­ins á torg­un­um, sem þekk­ir ekki til mann­rétt­inda, til að gera kröf­ur á hend­ur vald­inu um viður­kenn­ingu rétt­inda, sem má full­kom­lega jafna til mann­rétt­inda í laga­skiln­ingi? Er ekki upp­spretta þess­ar­ar hvat­ar að finna í siðvit­und­inni, það er í meðfædd­um siðferðileg­um viðhorf­um, sem ekki þurfa á nein­um lag­astuðningi að halda?“

Umræða um upp­runa

 Umræðuna um mann­rétt­indi seg­ir hann snú­ast um skiln­ing manna á því hvenær og hvernig mann­rétt­indi urðu til. „Þeir sem aðhyll­ast kenn­ing­ar nátt­úru­rétt­ar­manna telja að upp­haf mann­rétt­inda sé óviðkom­andi stofn­un ríkja, sem settu sér lög,“ seg­ir Ragn­ar. „Mann­eskj­ur njóti þeirra af því að þær eru mann­eskj­ur.“

Karl Marx hélt því fram að rétt­indi gætu ekki komið á und­an stofn­un rík­is. Jeremy Bent­ham sagði nátt­úru­rétt­indi vera „vit­leysu“ og nátt­úru­rétt­indi og ólög­boðin rétt­indi „vit­leysu á stult­um.“ Vild­ar­rétt­ar­menn seg­ir hann telja mann­rétt­indi ekki vera ásköpuð mann­eskj­unni, held­ur ákv­arðist af manna­setn­ing­um, í raun ákvörðunum vald­hafa.

„Átök­in snú­ast ekki ein­ung­is um til­vist þeirra í heild sinni og hvort ein­ung­is séu til lögákveðin mann­rétt­indi. Um það er einnig deilt hvort svo­nefnd já­kvæð mann­rétt­indi, þ.e. efna­hags­leg og fé­lags­leg rétt­indi, geti fallið und­ir mann­rétt­inda­hug­takið.“

Hann seg­ir mann­rétt­indi meðal ann­ars hafa verið skil­greind þannig, að þau séu siðferðis­leg trygg­ing eða ábyrgð, sem all­ar mann­eskj­ur í öll­um lönd­um njóta ein­ung­is vegna þess að þær eru mann­eskj­ur. „Mann­rétt­indi eru iðulega tal­in al­gild í þeim skiln­ingi að all­ir hafi þau og all­ir eigi að njóta þeirra,“ seg­ir Ragn­ar. „Okk­ur sem höf­um van­ist kenn­ing­um vild­ar­rétt­arsinna, þar sem ríkið er allt um­lykj­andi og eingin mann­rétt­indi viður­kennd, sem ekki eiga sér stoð í rétt­ar­reglu.“

Æðri rík­inu eða háð til­vist þess

Hann gerði að um­tals­efni upp­runa mann­rétt­inda, og ólíka sýn heim­spek­ing­anna Amartya Sen og Nor­berto Bobb­io á hann. „Þess­ir fræðimenn eru á önd­verðu máli um upp­runa mann­rétt­inda og sam­band siðferðilegra rétt­inda og mann­rétt­inda. Sen tel­ur mann­rétt­indi hafa verið til áður en ríki voru stofnuð og lög­fest­ing þeirra sé ekki skil­yrði fyr­ir til­vist þeirra,“ seg­ir Ragn­ar.

„Bobb­io tel­ur öll mann­rétt­indi vera manna­setn­ing­ar og að stofn­un rík­is með viðeig­andi valdi til að setja lög sé skil­yrði til­urðar mann­rétt­inda. Hvor­ug­ur þess­ara heim­spek­inga dreg­ur í efa til­vist mann­rétt­inda,“ seg­ir Ragn­ar. „Þeir eru ósam­mála um grund­völl þeirra. Þeim hef­ur ekki tek­ist, frek­ar en öðrum fræðimönn­um, að kom­ast að hinni einu óum­deildu niður­stöðu um fræðileg­an eða heim­speki­leg­an grund­völl mann­rétt­inda.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert