Það færist sífellt í vöxt að Valentínusardagurinn sé haldinn hátíðlegur á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Algengt er að það sé gert með því að gefa einhverjum ástkærum blóm eða góðgæti og stundum er viðtakandinn mamma eða pabbi.
„Ég hef séð aukningu á blómasölu á Valentínusardeginum frá ári til árs,“ segir blómasalinn Hendrik Berndsen, sem flestir þekkja sem Binna á Blómaverkstæði Binna. „Fólk er afar hugmyndaríkt við blómavalið, en rósir í ýmsum litum eru alltaf vinsælar.“
Binni segir að þó að blómasala hafi aukist jafnt og þétt þennan dag, þá komist hann ekki í hálfkvisti við konudaginn, sem er næstu helgi og er sá dagur ársins þegar mest selst af blómum. „En Valentínusardagurinn er langstærsti blómasöludagurinn í heiminum.“
Spurður hvort jafnt kynjahlutfall sé meðal blómakaupenda á Valentínusardeginum segir Binni svo vera. „Já, og það er eitt af því sem er svo skemmtilegt. Þetta gildir jafnt fyrir konur og karla og ekkert bara fyrir hjón eða kærustupör. Þetta er dagur til að gleðja þann sem maður elskar og sumir vilja gleðja mömmu sína eða pabba á þessum degi.“
Binni segir þó vera nokkurn mun á blómakaupum karla og kvenna. „Karlarnir leggja þetta miklu frekar í hendurnar á okkur, en konurnar koma oft inn með talsvert mótaðri smekk og eru ákveðnari í hvað þær vilja.“
Hjartalaga tertur, ástarhnoðrar og rauðir hjartakonfektmolar prýða hillur Mosfellsbakarís í dag. Áslaug Sveinbjörnsdóttir, einn eigenda bakarísins, segir að verið sé að svara eftirspurn eftir valentínusargóðgæti og að hún hafi aukist ár frá ári.
„Það hefur verið mikið að gera í morgun, stóraukning síðan í fyrra. Fólk vill fá eitthvað sérstakt á þessum degi,“ segir Áslaug.
Hún segir að Mosfellsbakarí hafi gert sérstakt valentínusarbakkelsi og -konfekt undanfarin ár við sívaxandi vinsældir. „Fyrst var svolítið um það að fólk segði að þessi dagur væri amerískt drasl. En núna finnst svo mörgum þetta sætt og sífellt fleiri hafa tekið þetta upp, þessi dagur á að vera krúttdagur og okkur vantar fleiri slíka daga þar sem allir eru góðir við alla.“
Að sögn Áslaugar kaupa bæði karlar og konur valentínusargóðgætið og hún segir fólkið vera á öllum aldri. „Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað unga fólkið er óhrætt við að tjá ást sína og tilfinningar.“