Tarfar vinsælli en kýr

Umsóknafrestur um hreindýraveiðileyfi rennur út á miðnætti 15. febrúar.
Umsóknafrestur um hreindýraveiðileyfi rennur út á miðnætti 15. febrúar. Eggert Jóhannesson

Umsóknarfrestur um leyfi til hreindýraveiða í haust rennur út á miðnætti annað kvöld, 15. febrúar. Umsóknum er skilað á vef Umhverfisstofnunar. Miðað við umsóknir sem þegar hafa borist virðast veiðimenn sækja meira í að veiða hreintarfa en hreinkýr.

Jóhann G. Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, sagði að fyrr í þessari viku hefðu borist ívið færri umsóknir um hreindýraveiðileyfi en á sama tíma í fyrra. Honum sýndist tilhneigingin vera sú að fleiri hefðu sótt um tarfa en kýr.

„Reynslan sýnir að margir sækja um á síðustu stundu,“ sagði Jóhann. „Nú lendir síðasti dagur umsókna á laugardegi og skrifstofan lokuð. Ef menn lenda í vandræðum með umsóknakerfið verður enginn til svara. Ef menn stranda í umsóknarkerfinu þá geta þeir bjargað sér með því að senda umsóknina í tölvupósti til mín á joigutt@ust.is.“ 

Heimilt verður að veiða allt að 1.277 hreindýr í haust. Það er fjölgun um 48 dýr frá því í fyrra. Heimildirnar skiptast þannig að leyft verður að veiða alls 657 kýr og 620 tarfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert