Aldrei sátt við að vera skyggn

Bíbí Ólafsdóttir, miðill.
Bíbí Ólafsdóttir, miðill. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég gaf loforð á endanum og hætti að streitast á móti,“ segir Bíbí Ísabella Ólafsdóttir miðill sem segist aldrei hafa verið sátt við að vera skyggn og orðið að sætta sig við það en örlagaríkur atburður varð til þess að hún ákvað að ganga þann veg að reyna að sýna fram á að lífið væri meira en það sem fólk sæi almennt. „Ég hef því látið mig hafa það að fara í sjónvarp og blöð og aldrei þorað að segja nei eftir þetta.“

Bíbí og þrír aðrir þekktir miðlar hér í bæ, Árni Már Jensson, Hrönn Friðriksdóttir og Þór Gunnlaugsson, segja frá lífi og starfi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina. Miðlar og spákonur hafa lifað með þjóðinni frá því að land byggðist og verða sumir þessara einstaklinga að hálfgerðum goðsögum á kaffistofum landsmanna meðan aðrir fá skömm í hattinn fyrir að hitta ekki á naglann.  

Hrönn Friðriksdóttir segir í greininni að hún telji þá endast stutt í faginu sem fari með fleipur því íslenskt samfélag sé svo lítið og allt spyrjist út. Hún segist jafnframt skilja fjölmargar efasemdaraddir. Hins vegar verður ekki litið framhjá því að margt er óútskýrt í þessari tilveru og marga rekur í rogastans þegar fréttir birtast þess efnis að stofnanir eins og sænska lögreglan fái spákonur og miðla til að taka þátt í rannsóknum mála. Slíkt hefur reyndar lengi tíðkast og í danska blaðinu Nationaltidende birtist grein árið 1949 þar sem sagt var frá íslenskri spákonu sem aðstoðað hefði rannsóknarlögregluna í Kaupmannahöfn við að leysa morðmál. Nafni konunnar, sem lýst var sem aldraðri og gráhærðri, var haldið leyndu en í fréttinni var sagt frá því að danska lögreglan hefði þá leitað til danskra spákvenna með engum árangri áður en þeir hittu þá íslensku.

Miðlarnir fjórir eru í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert