Gerði grín að verðandi sendiherra á Íslandi

Jon Stewart stýrir The Daily Show
Jon Stewart stýrir The Daily Show

Jon Stewart, stjórnandi spjallþáttarins The Daily Show, gerði í síðasta þætti óspart grín að þeim sem Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur skipað sendiherra landsins í ýmsum löndum. Þar á meðal nefndi hann Robert C. Barber lögmann, sem Obama hefur tilnefnt sem sendiherra landsins á Íslandi. 

Stewart gerir grín að þeirri staðreynd að nokkrir þeirra sem tilnefndir hafa verið virðast hafa afar takmarkaða þekkingu á löndunum þar sem þeir munu þjóna. George James Tsunis, sem hefur verið tilnefndur sem sendiherra í Noregi, talaði til að mynda um forseta Noregs og Robert C. Barber og Noah Mamet hafa aldrei komið til landanna þar sem þeir munu þjóna, Íslands og Argentínu. Colleen Bell, sápuóperuframleiðandi sem hefur verið tilnefnd sem sendiherra Bandaríkjanna í Ungverjalandi, hefur einnig sýnt afar takmarkaða þekkingu á landinu þar sem hún mun þjóna. 

„Ekki sérfræðingur í málefnum Kína“

Það vakti einnig athygli þegar verðandi sendiherra Bandaríkjanna í Kína sat fyrir svörum í bandaríska þinginu á dögunum. Eitt svar hans við spurningu hófst á orðunum: „Ég er nú enginn sérfræðingur í málefnum Kína.“

Allir ofannefndir eiga það sammerkt að hafa safnað ríkulegum styrkjum í kosningasjóð Baracks Obama. Mamet safnaði yfir 500 þúsund dollurum, Barber yfir 1,6 milljón dollurum, Bell meira en 800 þúsund dollurum og Tsunis 1,3 milljónum. 

Í áratugi hefur hlutfall faglega ráðinna diplómata í Bandaríkjunum verið um 70% á meðan vinir og pólitískir stuðningsmenn hafa fengið afgangsstöður, eða um 30%. Undir stjórn Obama hefur hlutfallið farið upp í 37% og hefur hann sætt mikilli gagnrýni fyrir það.

Sjá frétt Washington Post um málið.

Hér má sjá klippu úr þætti Jons Stewarts.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert