Stjórn MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, mun í dag funda vegna framkomu liðs Menntaskólans á Ísafirði í garð liðsmanns Menntaskólans á Akureyri í aðdraganda viðureignar skólanna á dögunum og í keppninni sjálfri. Í dag gaf þjálfari liðsins, Ingvar Örn Ákason, það út að hann væri hættur þjálfun ræðuliða. Alma Oddgeirsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Akureyri, sendi stjórn MORFÍs á dögunum formlega kvörtun vegna framkomu liðs MÍ.
„Að mati Eyrúnar Bjargar og annarra sem urðu vitni að samskiptunum einkenndust þau af kynferðislegum undirtón og kvenfyrirlitningu í garð Eyrúnar Bjargar og var hún iðulega ávörpuð „elskan, ástin, gæskan, vinan“. Annað dæmi um kvenfyrirlitningu og beinlínis kynferðislega áreitni voru samskipti sem fóru fram á Facebook og Eyrún Björg gaf mér heimild til að vitna til. Liðsmenn MÍ notuðust við tilbúinn aðgang að Facebook,“ segir m.a. í bréfi Ölmu til stjórnar MORFÍs.
Á stjórnarfundinum í dag verður framtíð liðsmanna og þjálfara MÍ í keppninni rædd.
Þjálfari liðs Menntaskólans á Ísafirði, Ingvar Örn Ákason, hefur nú ákveðið að hætta þjálfun ræðuliða fyrir fullt og allt. Það gaf hann út í pistli sem hann birti á facebooksíðu sinni í dag. Þar rifjar hann einnig upp atvik sem kom upp í MORFÍs-keppni árið 2008 þegar lið sem hann þjálfaði sýndi af sér afar ósiðlega hegðun þegar liðsmaður sýndi nektarmynd af andstæðingi sínum í ræðustól.
„Það sem gerðist árið 2008 var slæmt og enn verra fyrir sálartetrið. Sex ár síðan. Mistök og dómgreindarleysi af hálfu þjálfara og liðsmanna. Þjálfarinn, ég, átti að vita betur enda þjálfari liðsins. Ræðukeppnin Morfís var að ég tel á mjög slæmum stað á þeim tíma. Ég ætla ekki að mála aðra út í horn en leikurinn var almennt kominn í algjört þrot, hjá mörgum a.m.k. Þessi skemmtilegi leikur sem svo margir höfðu gaman af,“ segir Ingvar í pistli sínum.
„Við gerðum okkur grein fyrir mistökum okkar á sínum tíma þegar málið var klárað. Ég trúi að liðsmenn mínir í dag sem viðhöfðu þessi orð í garð kvenna geri sér grein fyrir mistökum sínum enda allir sammála um að þetta hafi ekki átt rétt á sér. Sumt er ekki satt sem skrifað hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga en það virðist öllum vera sama. Ákveðinn og yfirgengilegur dónaskapur af hálfu liðsins átti sér stað sem ekki er hægt að taka til baka heldur geta allir sem að þessu koma eingöngu iðrast. Sum orðanna sem látin voru falla voru ekki í því samhengi sem sagt var í fjölmiðlum og annað misskilið og mistúlkað. En það skal koma skýrt fram að ekkert af þessu kom frá mér, hvorki sem þjálfara né manneskju. Mér urðu samt á mistök við að taka ekki alfarið fyrir þetta og þar fría ég mig ekki ábyrgð.“
„Ég held samt og vona að það sé langflestum ljóst að ég hata ekki konur, hvorki þá né núna. Ég veit líka að liðsmenn ræðuliðs MÍ hata ekki heldur konur. Ég hef lagt líf og sál mína að veði í þessa ræðuþjálfun, lagt mig fram um að vera heiðarlegur og hef verið tengdur liðum sem fóru alla leið og unnu og svo þjálfað sjálfur einn míns liðs ræðulið sem fór alla leið í úrslit. Ég tel mig hafa unnið gott starf með þá mýmörgu sem ég hef þjálfað og hjálpað í þessu.
En nú er gott að setja pennann á hilluna, komin góð 10 ár af ræðuþjálfun og löngu orðið tímabært að einbeita sér að öllu hinu sem maður er að vinna að. Þessi tímaþjófur færist yfir á aðrar og betri hendur. Ég óska eftir því að allir sem komu að þessu máli fái nú frið til að sinna sínum verkefnum í sínu eigin lífi og ég ítreka hamingjuóskir mínar og afsökunarbeiðni til liðsmanna MA sem eru með flott ræðulið og gott starf í gangi þar að venju. Það átti enginn að vera lítilsvirtur enda á þetta að vera þessi skemmtilegi leikur sem svo margir hafa (eða a.m.k. höfðu) gaman af! Með vinsemd og virðingu.“
Frétt mbl.is: Ég væri samt alveg til í drátt