Lárus Welding, sem er ákærður ásamt Jóhannesi Baldurssyni og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og farið út fyrir heimildir sínar er hann lét Glitni lána Stím tugi milljarða. Stefndi hann fjármunum bankans í verulega hættu.
Sérstakur saksóknari hefur birt ákærur yfir þremenningunum en Jóhannes, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, er einnig ákærður fyrir umboðssvik og Þorvaldur Lúðvík, sem var forstjóri Saga Capital, er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Jóhannesar.
Í ákærunni gegn Lárusi kemur fram að hann hafi látið Glitni veita FS 37 (Stím ehf.) tæplega 20 milljarða króna lán án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur hans.
Lárus undirritaði fyrir hönd Glitnis lánasamninginn við FS 37 en lánið var til eins árs og veitt í þeim tilgangi að fjármagna um 78% af kaupverði FS 37 á um 4,3% hlut í Glitni banka og um 4,1% hlut í FL Group. Hlutabréfin keypti félagið af Glitni sjálfum, alls 640 milljónir hluta í Glitni á 25,5 krónur á hlut og 380 milljónir hluta í FL Group á 22,05 krónur á hlut.
Sem tryggingu fékk bankinn að veði hlutabréfin í FL Group og allt hlutaféð í FS 37. Í lánssamningnum kom fram að FS 37 myndi skuldbinda sig til þess að hafa stöðu eigna félagsins á móti samanlögðum uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins samkvæmt samningum að minnsta kosti 125%.
Vegna gengislækkunar hlutabréfa Glitnis og FL Group voru eignir FS 37 þegar komnar undir þetta áskilda eignahlutfall þegar lánið var greitt út. Eiginlegar tryggingar fyrir lánveitingunni voru því ófullnægjandi og fjártjónshætta veruleg.
Verðmæti Stíms 15 milljarðar en skuldin við Glitni 23 milljarðar
Í mars 2008 var um 80% af eignum Stíms (FS 37) skipt á fjögur ný félög sem voru öll alfarið í eigu Stíms. Glitnir lánaði hverju þeirra um 2,7 milljarða króna og var þeim fjármunum, 10,9 milljörðum króna, varið í kaup á hlutabréfum í Glitni og FL Group. Hver hlutur í Glitni var á þessum tíma keyptur á 17,15 krónur og í FL Group 6,27 krónur.
Verðmæti Stíms og dótturfélaganna fjögurra var á þessum tíma komið niður í um 15 milljarða en skuldir þeirra við Glitni voru komnar í 23 milljarða króna. Þrátt fyrir þetta voru engar viðbótartryggingar lagðar fram. Stím greiddi síðan tæpar 211 milljónir inn á fyrra lánið þann sama dag, það er 28. mars 2007.
Fengu 0,06% upp í kröfur
Bú Stíms var tekið til gjaldþrotaskipta 24. maí 2012. Lýstar almennar kröfur í þrotabúið námu rúmum 24 milljörðum króna. Fékk Glitnir rúmar 15 milljónir króna eða 0,06% upp í kröfu sína.
Slitastjórn Glitnis lýsti síðan 17,7 milljarða króna almennri kröfu í dótturfélög Stíms án þess að fá nokkuð upp í kröfurnar.
Lárus er jafnframt ákærður fyrir annað lán til Stíms upp á lægri fjárhæð eða rúmar 725 milljónir króna. Þeir peningar voru allir notaðir, Glitnir ráðstafaði þeim fyrir Stím, til Kaupþings sem greiðslu á hlutabréfum í FL Group. Þetta var í ársbyrjun 2008 en Stím hafði verið skráð fyrir hlutabréfunum í hlutafjárútboði sem Kaupþing annaðist fyrir FL Group í desember 2007. Þegar Glitnir lánaði Stím fyrir greiðslunni var virði FL Group búið að lækka um rúm 10% á tveimur vikum. Stím keypti sem sagt bréfin í FL Group hinn 4. janúar á 14,7 krónur á hlut en á almennum markaði þann dag fengust 13,2 krónur fyrir hvern hlut í FL Group.
Gaf undirmanni fyrirmæli um kaup á skuldabréfi fyrir rúman milljarð
Jóhannes er eins og áður sagði ákærður fyrir umboðssvik en hann misnotaði aðstöðu sína og stefndi fjármunum GLB FX fagfjárfestasjóðsins (sem undirmenn hans stýrðu) í verulega hættu þegar hann gaf undirmanni sínum fyrirmæli á tímabilinu 6.-29. ágúst 2008 um að sjóðurinn keypti víkjandi skuldabréf fyrir rúman einn milljarð króna í eigu Sögu Capital, útgefið af Stími, þótt skuldabréfið væri án fullnægjandi trygginga og skuldir Stíms langt umfram verðmæti eigna.
Greiddi sjóðurinn sögu Capital alls 1.221 milljón króna fyrir skuldabréfið. Námu kaupin um 15% af heildareignum fagfjárfestasjóðsins GLB FX.
„Þegar ákærði Jóhannes lét GLB FX fagfjárfestasjóðinn kaupa hið víkjandi skuldabréf í ágúst 2008 vissu ákærðu eða máttu vita að eigið fé skuldarans Stíms ehf. var neikvætt og eignir félagsins höfðu rýrnað verulega. Þannig lá fyrir að síðasta skráða gengi hluta í FL Group hf., áður en ákærði Jóhannes gaf fyrirmæli um kaupin var 6,58 en það var 6. júní 2008 þegar félagið var afskráð af hlutabréfamarkaði. Á þeim degi sem samningur um framvirk kaup á víkjandi skuldabréfinu var dagsettur, 18. ágúst 2008, var dagslokagengi í Glitni banka hf. 15,75. Eins og verðmæti eigna Stíms ehf. var þegar viðskiptin áttu sér stað og vegna víkjandi stöðu skuldabréfsins gagnvart forgangsláni Glitnis banka hf. fékk GLB FX fagfjárfestasjóðurinn ekki fullnægjandi tryggingar fyrir greiðslu skuldabréfsins.
Hvatti Jóhannes til að finna kaupanda og velta áhættunni á sjóðinn í stað Sögu
Ákærðu var því báðum ljóst eða mátti vera ljóst að yfirgnæfandi líkur voru á því að hið víkjandi skuldabréf á hendur Stími ehf. fengist ekki greitt á gjalddaga 19. nóvember 2008, sem var jafnframt lokadagur framvirka samningsins,“ segir í ákærunni.
Þar segir að hlutdeildarbrot Þorvaldar Lúðvíks, sem var forstjóri og stærsti einstaki hluthafi í Sögu Capital, hafi falist í því að hann hafi sótt á og hvatt Jóhannes til að finna kaupanda að hinu víkjandi skuldabréfi í því skyni að Saga Capital fengi efndir fjárkröfu sinnar á hendur Stími. Með þessu var allri áhættunni velt yfir á GLB FX sjóðinn af Saga Capital. Tap GLB FX vegna þessa var rúm 1.221 milljón króna því ekkert fékkst upp í kröfuna.