„Ég hafði skilning á þessu fyrri nóttina en þegar við þurftum að dúsa þarna tvær nætur þá trúði maður þessu ekki alveg,“ segir Stefanía Hákonardóttir, en hún var ein af farþegum vélar Icelandair sem bilaði á Kastrup-flugvellinum Kaupmannahöfn í fyrradag. Farþegarnir þurftu að gista tvær nætur í Kaupmannahöfn áður en hægt var að koma þeim til Íslands.
„Ég var á leiðinni frá Stokkhólmi til Íslands og millilenti í Kaupmannahöfn. Þar átti ég að bíða í 40 mínútur eftir næsta flugi. Þegar við vorum svo öll komin í vélina og vélin komin út á flugbraut staðnæmdist hún og við tók löng bið. Við fengum upplýsingar um að það þyrfti að skoða vélina eitthvað og að það gæti tekið svolítinn tíma. Eftir einn og hálfan tíma fengum við svo að vita að það gæti tekið enn lengri tíma og okkur var hleypt frá borði en við beðin að fara ekki langt frá hliðinu okkar svo þeir gætu kallað okkur aftur um borð,“ segir Stefanía.
„Þegar við komum frá borði hins vegar vorum við öll flutt upp á hótel og okkur sagt að við ættum flug klukkan 14 daginn eftir. Farþegunum var sagt að bilun hefði átt sér stað og að það vantaði varahlut sem senda yrði frá Íslandi. Þegar ég ætlaði svo að skrá mig út af hótelinu um hádegi daginn eftir var mér sagt að fluginu hefði seinkað til fjögur. Svo fór ég út á flugvöll um klukkan tvö og fæ að vita að fluginu hafi aftur seinkað. Ég átti að keppa nú í dag í Bikarkeppni frjálsíþróttasambandsins þannig að ég reyndi að fá að skipta um flug en það gekk ekkert í samskiptum við starfsfólk SAS,“ sagði Stefanía.
Þegar flugvélin var svo aftur komin út á flugbraut, sólarhring eftir að hún átti upprunalega að fara af stað, endurtók sagan sig og farþegarnir voru aftur sendir upp á hótel. Þá var fengin aukaflugvél sem flutti farþegana heim í dag. „Ég missti af fyrsta hlaupinu mínu í dag en með dyggri aðstoð flugfreyjanna hjá Icelandair tókst mér að ná boðhlaupinu. Þær stóðu sig gríðarlega vel en það vantaði upplýsingaflæði frá yfirstjórninni og í raun ótrúlegt að þetta skuli hafa gerst,“ bætir Stefanía við.
Hún segir farþegana hafa fengið matarpeninga og ágætlega hafi verið séð um þá að vissu leyti. „Það vantaði hins vegar upp á að það væri einhver þarna sem gæti veitt okkur upplýsingar um stöðuna,“ segir Stefanía að lokum.
Strandaglóparnir komnir í loftið