„Þetta er fyrir það fyrsta mjög skemmtilegt starf, allavega að mínu mati. En þetta er líka gífurlega mikil vinna. Við þekkjum mörg mál fyrirfram en það er margt sem við höfum þurft að kynna okkur sem við þekktum ekki áður. Þannig að þessir fyrstu 120 dagar eða svo sem þessi ríkisstjórn hefur setið hafa meðal annars farið í það að setja okkur inn í málin, kynna okkur sjónarmið fólks gagnvart þessum málaflokki sem við berum ábyrgð á og skoða hvaða málum er hægt að koma sem fyrst til framkvæmda.“
Þetta segir Reynir Jóhannesson, en hann tók við starfi pólitísks ráðgjafa samgönguráðherra Noregs Ketil Solvik Olsen, í kjölfar þingkosninganna í landinu síðastliðið haust og myndun ríkisstjórnar Hægriflokksins og Framfaraflokksins en þetta er í fyrsta sinn sem sá síðarnefndi á formlega aðild að ríkisstjórn. Reynir, sem er 28 ára að aldri, var staddur hér á landi fyrir helgi vegna starfs síns og tók mbl.is hann tali í tilefni af því. Hann er fæddur og uppalinn á Siglufirði en fluttist átta ára gamall með foreldrum sínum til Noregs. Hann tók snemma þátt í stjórnmálum á vettvangi Framfaraflokksins og varð bæjarstjórnarfulltrúi fyrir flokkinn 18 ára gamall í heimabæ sínum Sandefjord.
Reynir flutti síðan til Íslands til þess að læra stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með BA gráðu í þeim fræðum árið 2009. Hér á landi kynntist hann einnig eiginkonu sinni, Ástu Hrund Guðmundsdóttur, og fluttu þau síðan saman til Noregs árið 2010. Reynir starfaði sem ráðgjafi á samskiptasviði þingflokks Framfaraflokksins fram að þingkosningunum í haust en hafði ráðið sig til starfa hjá almannatengslafyrirtæki að þeim loknum. Tveimur vikum eftir að hann hóf störf hjá fyrirtækinu var haft samband við hann og honum boðið að starfa fyrir ráðherrann.
Draumurinn að geta komið að stefnumótun
„Fyrirkomulagið er svipað og á Íslandi með aðstoðarmenn ráðherra. Pólitískir ráðgjafar eins og ég vinna náið með viðkomandi ráðherra. Við ferðumst saman og ég sé um öll samskipti hans við fjölmiðla. Síðan er ráðherrann sem ég vinn fyrir einnig varaformaður Framfaraflokksins þannig að ég aðstoða hann líka við að sinna þeim störfum hans. Ráðherrann hefur líka falið mér að halda utan um póst- og fjarskiptamálin þannig að ég hef heimild frá honum til að vinna að þeim málum. Það eru ekki allir pólitískir ráðgjafar sem fá slíkt ábyrgðasvið,“ segir hann.
Reynir segist mjög þakklátur fyrir að hafa verið treyst fyrir þessum málaflokki. hann hafi mikinn áhuga á fjarskiptamálum og mikið traust ríki á milli hans og ráðherrans en Reynir var ráðherranum einnig innan handar í stjórnarandstöðu. „Það er mjög gaman að fá þannig tækifæri til þess að koma að stefnumótun. Það má segja að það sé draumur hvers áhugamanns um stjórnmál.“ Aðspurður segir hann samstarfið við Hægriflokkinn í ríkisstjórn ganga mjög vel þvert á það sem ýmsir hafi vafalaust gert ráð fyrir og vonað. Þar vísar hann einkum til pólitískra andstæðinga.
„Það voru raddir í samfélaginu sem fullyrtu að Framfaraflokkurinn væri ekki stjórntækur og reyndu að hræða fólk frá því að kjósa okkur á þeim forsendum. En við höfum sýnt að þetta er stjórntækur flokkur, sem kann að axla ábyrgð og sem vinnur faglega að málum. Þannig að þessar raddir eiga svolítið erfitt í dag og vita í raun ekki hvernig þeir eiga að bregðast við þessu. Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, er núna fjármálaráðherra landsins og er almennt talinn mjög ábyrgur ráðherra og mjög duglegur og flinkur. Þetta er algerlega öfugt við það sem margir á vinstrivængnum héldu fram og hafa sjálfsagt trúað því sjálfir, verið búnir að ákveða fyrirfram,“ segir hann.
Farið úr áhorfendastúkunni í þjálfarasætið
„Vitanlega er það þannig að þegar flokkur hefur verið í 40 ár í stjórnarandstöðu eins og Framfaraflokkurinn var þá hefur ýmislegt verið sagt og menn hafa oft á tíðum þurft að vera mjög harðir. Það er það verkfæri sem flokkar í stjórnarandstöðu hafa til þess að vekja á sér athygli. Þetta er svolítið eins og í fótboltanum. Þeir sem eru uppi í stúkunni þurfa að láta heyra í sér til þess að ná athygli leikmannanna á vellinum. Þetta þurftum við að gera í 40 ár. Nú má segja að við séum í hlutverki þjálfarans og þegar við hvíslum að leikmönnunum þá er hlustað,“ segir hann ennfremur.
Reynir segir að ríkisstjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins, sem er minnihlutastjórn og studd á þingi af Kristilega þjóðarflokknum og frjálslynda flokknum Venstre, hafi lagt mikla áherslu á að einfalda alla ákvarðanatöku í stjórnsýslunni. Bæði á vettvangi ríkisstjórnarinnar sem og fyrir venjulegt fólk sem vill til að mynda byggja bílskúr við húsið sitt eða stofna fyrirtæki. Draga úr skriffinsku og flækjum í stjórnkerfinu og auka þannig frelsi einstaklinganna og draga úr kostnaði. Meðal annars með það fyrir augum að tryggja að mál séu ekki að velkjast árum saman í stjórnkerfinu og jafnvel án þess að niðurstaða fáist.
„Við tókum til að mynda ákveðið mál þar sem breyta þurfti einföldum vegi í fjórar akreinar. Þetta mál var búið að vera fast í umhverfisráðuneytinu í fjögur ár í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sem sagt ekki búið að afgreiða málið pólitískt. Þegar við tókum við boðuðum við umhverfisráðherrann og ráðherra sveitarstjórnarmála á okkar fund ásamt sérfræðingum þeirra sem voru að vinna að þessum málum þar sem farið var yfir málið. Það tók viku að afgreiða málið. Við tókum tillit til sjónarmiða umhverfisráðuneytisins en markmiðið var að finna lausn. Umhverfisráðuneytið hafði ákveðnar kröfur og við einfaldlega náðum samkomulagi,“ segir hann.
Hissa á að ráðherrann borðaði í matsalnum
„Þessi ríkisstjórn verður þekkt fyrir það að breyta stjórnkerfinu með þessum hætti og þora að taka ákvarðanir. Það er svo mikilvægt að stjórnmálamenn séu reiðubúnir að veita pólitíska forystu og taka af skarið. Ef þeir gera það ekki þá stoppar allt. Vegna þess að það er ekkert hægt að gera nema pólitísk heimild liggi fyrir,“ segir Reynir. Þetta hafi til að mynda verið vandamál í tíð síðustu ríkisstjórnar undir forystu Verkamannaflokksins. Þeir hafi látið vinna fjöldann allan af skýrslum um hin ýmsu mál en hins vegar hafi verið einhver hræðsla við að taka ákvarðanir. Hann segir að nýjum vinnubrögðum hafi almennt verið vel tekið í ráðuneytunum.
„Það er mjög góð stemning í ráðuneytinu. Við höfum lagt mikla áherslu á að draga úr bilinu sem hefur verið á milli yfirstjórnar ráðuneytisins og starfsmanna þess. Síðan við komum til starfa hérna höfum við til dæmis borðað bara í mötuneytinu. Þetta þótti starfsmönnunum fyrst skrítið vegna þess að fyrri ráðherra og hans nánustu starfsmenn höfðu alltaf fengið sendan mat upp á skrifstofurnar sínar. Ég var alltaf kallaður fyrst í stað Hr. Jóhannesson og ráðherrann ekkert annað en Hr. ráðherra. En við höfum breytt þessu. En á hinn bóginn fer ekkert á milli mála hver ræður þegar taka þarf ákvarðanir,“ segir hann.
„Við höfum líka lagt mikla áherslu á að starfsmenn ráðuneytisins geti tjáð sig opinskátt um þau verkefni sem við erum að vinna að. Við viljum ekki bara heyra jákvæðar umsagnir um þau heldur einnig athugasemdir. Til þess að ráðherrann geti tekið sem besta ákvörðun þarf hann vitanlega að hafa sem mestar upplýsingar og sem besta yfirsýn. Við viljum ekki bara hafa einhverja í kringum okkur sem segja já við öllu. Þeir eiga einfaldlega að veita okkur faglegar ráðleggingar en ekki bara segja okkur það sem við viljum heyra. Síðan er það vitanlega ráðherrans að taka endanlega ákvörðun. Þetta hefur virkað mjög vel,“ segir Reynir að lokum.