„Ég hef valið mér sjónarhorn femínisma til að skoða áhrif kynferðis við afmörkun og vernd mannréttinda og velta upp hugmyndum um hvernig við tryggjum að mannréttindi séu fyrir konur og karla,“ segir Brynhildur G. Flóvenz
Brynhildur er einn mælenda á hátíðarmálþingi Orator, sem haldið var á föstudaginn. Spurningin „Eru mannréttindi til“ var yfirskrift málþingsins.
„Hvernig ákveðum við hvaða réttindi njóti verndar alþjóðlegra mannréttindalaga? Liggur það alveg ljóst fyrir? Er það alveg augljóst að eignarétturinn eigi að njóta friðhelgi? Er nauðsynlegt að verja trú og trúarbrögð sérstaklega?“ spyr Brynhildur, en ljóst er að yfirskrift málþingsins vakti ófáar spurningar meðal fyrirlesara.
„Við valið á þeim réttindum sem eiga að njóta verndar þá er það með mannréttindalögin eins og aðra löggjöf að það er reynsla okkar, þekking og lífsskilyrði sem við hljótum að byggja á við valið, á sama hátt og reynslan af mannréttindabrotum síðari heimsstyrjaldarinnar kallaði á alþjóðareglur um mannréttindi,“ segir Brynhildur.
Hún bendir á að átta karlar og ein kona hafi samið mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. „Þar sjáum við strax mikla skekkju. Enginn hörundsdökkur fulltrúi var í nefndinni og reyndar enginn Afríkumaður. Það er merkilegt fyrir þær sakir að mannréttindi höfðu verið brotin gegndarlaust gagnvart Afríkumönnum á þessum árum, eins og reyndar ennþá, og þá ekki síst af sumum þeirra ríkja sem fulltrúa áttu í nefndini,“ segir hún.
Hún segir að í umfjöllun um hvort og hvernig mannréttindalöggjöf tryggi vernd kvenna hafi verið bent á að „löggjöf sé hluti af kjarna feðraveldisins eða karlaveldisins og að tungumál laganna og uppbygging beri einkenni hefðbundinna karlgilda eða einkenna, á meðan eiginleikar eða gildi, sem hafi með réttu eða röngu verið tileinkuð konum, endurspeglist ekki í henni“.
„Þegar kemur að vernd mannréttinda kvenna ber fyrst að nefna að það að vera kona felur í sér margar hættur og ógnir við líf og heilsu. Kynferðið sjálft getur verið ógn við líf og heilsu. Strax í móðurkviði er stúlkufóstrum frekar eytt, Kína hefur sérstaklega verið nefnt í því sambandi.“ Þar sem fæðuskortur er segir hún stúlkubörn frekar borin út en drengi.
„Segja má að nokkrir áratugir hafi liðið þar til farið var að gera athugasemdir við karllægni alþjóðlegra mannréttindalaga og túlkunar þeirra. Fyrstu áratugina eftir samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar virðast menn hafa verið nokkuð sammála um að hin nýskráðu mannréttindi væru viðfangsefni sem væri það mikilvægt, viðkvæmt eða brothætt, að áherslan skyldi vera á að styrkja stoðir réttindanna fremur en að gagnrýna þau,“ segir hún.
Hún vakti sérstaka athygli á stöðu trúarbragða í þessu samhengi. „Eitt mikilvægt einkenni helstu trúarbragða veraldar, þeirra á meðal kristni, íslam og gyðingdóms, er feðraveldi þeirra. Kaþólska kirkjan, sem stór hluti kristinna tilheyrir, byggist á 100% kynjakvóta í þeim skilningi að konur eiga ekki aðgang að valdakerfi hennar, hvorki stjórnun stofnana né túlkun þeirra á trúnni. [...] Raunveruleikinn er sá að þessi trúarbrögð skerða frelsi kvenna sérstaklega.“