Það gengur á ýmsu við Höfðatorg þessa mánuðina. Þegar blaðamaður mbl.is kom þar við í vikunni var fjöldi fólks að störfum og grunnurinn orðinn að húsi sem hækkar jafnt og þétt. Hallgrímur Magnússon, byggingarstjóri Höfðatorgs, segir að lítið megi út af bregða en enn sé allt á áætlun, hótel á sextán hæðum verði tilbúið 1. júní 2015.
Stefnt er að því að hótelið taki til starfa sumarið 2015 og er byggingartíminn rúmir átján mánuðir. Það er byggingarfyrirtækið Eykt sem byggir hótelið líkt og aðrar byggingar við Höfðatorg undanfarin ár.
Eykt áformar að hefja framkvæmdir við 12 hæða íbúðaturn við Höfðatorg í haust. Á bilinu 70 til 75 íbúðir verða í turninum og er áætlað að framkvæmdum ljúki síðla árs 2016. Áætlaður kostnaður við íbúðaturninn og hótelið er 12 milljarðar króna.
Miðar vel með hækkandi sól
Rúmir fimmtán mánuðir eru þar til tekið verður á móti fyrstu gestum hótelsins og að sögn Hallgríms er verkefnið í járnum líkt og vitað var frá upphafi enda um 17 þúsund fermetra byggingu að ræða.
„Það má ekkert út af bregða, það er bara þannig,“ segir Hallgrímur. Desember var mjög erfiður segir hann en mun betur hafi gengið með hækkandi sól.
Unnið er alla daga við bygginguna en hefðbundinn vinnudagur starfsmanna er tíu tímar. Það eru hins vegar ákveðnir verkþættir sem verða að vinnast eftir að hefðbundnum vinnudegi lýkur. Meðal annars steypuvinna og keyrsla aðfanga inn á svæðið.
Að sögn Hallgríms má segja að það sé ákveðin vaktaskipting í gangi á byggingarsvæðinu en það er nauðsynlegt til þess að nýta tæki og tól, svo sem krana, sem best. Það sem stýrir þessu er ekki hversu marga tíma hver vinnur heldur það hvernig tækin nýtast sem best.
Þegar fólk sem vinnur í Borgartúninu og annars staðar í nágrenni Höfðatorgs heldur heim á leið úr vinnu er enn allt í fullum gangi á Höfðatorgi. „Hér er unnið fram á kvöld alla daga vikunnar og það verður þannig út verktímann,“ segir Hallgrímur.
Alls eru 70-80 að vinna við byggingu hótelsins þessa dagana og eru hönnuðir og yfirstjórn inni í þeirri tölu. Þegar mest verður má búast við því að 200-300 manns vinni við bygginguna.
Þegar mbl.is heimsótti Hallgrím á byggingarsvæðið um miðjan nóvember var verið að vinna við kjallara turnsins. Nú er búið að steypa kjallara mannvirkisins sem og bílakjallara. „Við erum komnir upp á jarðhæð og þegar við erum komnir upp á aðra hæð fer steypuvinnan að ganga hraðar,“ segir Hallgrímur og bendir á að hver veggur í kjallara er klæðskerasaumaður til þess að búa til undirstöðuna. Þegar komið er upp á hæðirnar tekur endurtekningin við. „Við bíðum spenntir eftir því að komast á þann reit,“ segir Hallgrímur.
Samhliða steypuvinnu er unnið innanhúss og að klæðningu utanhúss. „Við erum þegar byrjaðir á vinnu við pípulagnir og raflagnir í kjallaranum og byrjað er að mála þar,“ segir Hallgrímur.
Þannig að það eru píparar, rafvirkjar, málarar og loftræstimenn að störfum í kjallaranum á meðan úti sé verið að steypa upp húsið sjálft.
Það sem einkennir bygginguna er að það er allt unnið samhliða, innanhúss sem utan. Með því er komið í veg fyrir að þegar húsið er risið þá eigi eftir að gera allt innanhúss sem og ganga frá að utan. Það er hefðbundið verklag við byggingarframkvæmdir og er mun tímafrekara skipulag sem einfaldlega er ekki í boði við byggingu hótelsins.
Þetta verður að takast
Allt efni sem notað er við bygginguna er pantað um leið og hönnun lýkur. Annars gengi þetta hreinlega ekki upp, segir Hallgrímur. Aðspurður hvort þetta muni takast, það er að hótelið verði tilbúið hinn 1. júní 2015 er svarið einfalt: Þetta verður að takast. Hann bætir við: „En við værum ekki hér ef við værum ekki bjartsýnir á það. En þetta er og verður í járnum allt fram á síðasta dag,“ segir Hallgrímur.
Mikið hefur gengið á við bygginguna og synd að segja að athafnaplássið sé mikið á svæðinu. Þetta hlýtur að reyna á þolrif þeirra sem vinna í næstu húsum og viðurkennir Hallgrímur að svo sé.
Eitthvað var um kvartanir þegar jarðvegsvinnan var í gangi og grunnurinn sprengdur. Eðlilegt er að kvartanir berist þegar allt leikur á reiðiskjálfi enda fólk hrætt um eignir sínar og eins við skjálftana sjálfa, segir hann.
Hallgrímur segir að almennt hafi fólk tekið framkvæmdunum vel. „Það sér að það er verið að ljúka við hlutina og auðvitað er ekki hægt að vera allra við framkvæmdir inni í borg.“
Byggist allt á góðu skipulagi
Grunnflötur vinnusvæðisins eru ekki margir fermetrar og ljóst að það verður þröngt setinn bekkurinn þegar vinna hefst við íbúðaturninn í haust. Hallgrímur segir að rýmið sem unnið er á við Höfðatorg sé kannski ekki mikið miðað við það sem Íslendingar eiga að venjast en það sé hins vegar himinn og haf á milli þess rýmis og þess sem venjan er við framkvæmdir í stórborgum. Þetta byggist allt á góðu skipulagi, bæði varðandi aðflutninga og geymslusvæði.
Að sögn Hallgríms er hönnun að hefjast við íbúðaturninn og svo á eftir að ganga frá byggingarleyfinu sjálfu svo hægt verði að byrja á jarðvinnunni í sumar. Ef þetta gengur eftir verður hægt að nýta uppsteypuhópinn yfir í þá byggingu með því að færa hann á milli húsa og þannig koll af kolli.
Mbl.is mun heimsækja Hallgrím næst eftir þrjá mánuði eða um miðjan maí og á Hallgrímur von á því að þeir verði komnir upp á fjórðu hæð, gluggar komnir og búið að klæða að utan. Búið verði að loka húsinu og innanhúsfrágangur kominn á fullt. En líkt og fram hefur komið mun mbl.is fylgjast með framkvæmdum við byggingu hótelsins í máli og myndum allt þar til hótelið tekur við fyrstu gestunum sumarið 2015.