Trommuleikara vantar á Alþingi

„Það hafa verið einhverjar þreifingar um að stofna Alþingis-band fyrir Alþingisveisluna en það virðist vera sama vandamál hér og í öðrum tónlistarsenum, það er skortur á frambærilegum trommurum,“ segir Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, en hann syngur bakraddir í atriði Pollapönks, sem verður framlag Íslands í Eurovision í ár.

„Ég kom inn í þetta með frekar stuttum fyrirvara. Ég auðvitað kem úr tónlistarbransanum og þekki strákana í Pollapönki og hef unnið með þeim flestum einhvern tímann í gegnum tíðina. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi á einhverjum tímapunkti viljað bæta í atriði sitt og höfðu samband við mig. Mér leist vel á atriðið, þetta eru skemmtilegir drengir, skemmtilegt lag og frábær skilaboð í textanum þannig að ég sló til. 

Þingmenn sjaldgæfir í Eurovision

Ég var kannski ekkert að velta fyrir mér möguleikanum á að það yrði eitthvert framhald, en nú verðum við að finna út úr því,“ segir Óttarr. Hann segist hafa náð einni æfingu með hljómsveitinni áður en hún steig á svið í Háskólabíói í gærkvöld. Óttarr veit ekki til þess að þingmaður hafi tekið þátt í Eurovision áður og ljóst að nóg er á hans dagskrá á næstu mánuðum. „Maður er búinn að koma sér í þessi vandræði þannig að maður reynir að klára það sem maður er byrjaður á,“ bætir Óttarr kátur við. 

Tónlist oft rædd meðal þingmanna

Óttarr segir alþingismenn almennt hafa töluverðan áhuga á tónlist. „Það er lúmskt mikið rætt um tónlist á Alþingi og það sýnir hvernig tónlistin er. Það hafa flestir áhuga og einhverja tilfinningu fyrir tónlist. Svo eru menn meðvitaðir um að ég hafi verið að stússa í músíkinni þannig að það kemur kannski oftar upp í samræðum við mig en aðra.“ Hann segir töluvert af gítarleikurum á þingi en trommarann vanti enn. „Lykillinn er oft í trommaranum. Góðir trommarar eru gulls ígildi.“

Það er hljómsveitin Pollapönk sem fer til Danmerkur í Eurovision
Það er hljómsveitin Pollapönk sem fer til Danmerkur í Eurovision
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert